Veitingastaðurinn Haust

Home / Veitingastaðurinn Haust

Ég átti nýlega góða stund á veitingastaðnum Haust þar sem ég naut matarins á hádegisverðahlaðborði þessa hlýlega og fallega veitingastaðar. Við komu okkar blasti við okkur stórglæsilegt hlaðborð með miklu úrvali af foréttum, aðallréttum, dásamlegu meðlæti og ofurgirnilegum eftirréttum.

IMG_5593-2

Hönnun staðarins var í höndum Leifs Welding

Haust er veitingastaður sem er staðsettur í nýja Fosshótelinu við Þórunnartún 1 en matseldin þar einkennist af ferskum, íslenskum hráefnum í nýjum og spennandi búningi. Matseðlarnir eru bundnir uppskeru hverrar árstíðar og áherslan fyrst og fremst á ferskleika, gæði og virðingu fyrir náttúru landsins og því hráefni sem hún hefur upp á að bjóða.

IMG_5523

Það sem maður tekur fyrst eftir þegar gengið er inn á Haust er að hönnun staðarins er einstaklega fögur en fyrir henni stendur enginn annar en Leifur Welding sem löngu er orðin þekktur fyrir hæfileika til að hanna falleg og stílhrein rými og óhætt að segja að það hafi tekist með eindæmum vel í þessu tilfelli.

IMG_5556

Hádegisverðarhlaðborð Haust

Veitingastaðurinn Haust býður nú upp á hádegiverðahlaðborð fyrir gesti sína, þar sem úrvalið er fjölbreytt og maturinn sannkölluð veisla fyrir bragðlaukana. Hér er úr mörgu að velja og meðal annars boðið upp á súpu með nýbökuðu brauði, pestó, dásamleg salöt og fjölbreytt meðlæti, kjöt- og fiskrétti ásamt guðdómlegu úrvali af eftirréttum.

IMG_5603

Dásamleg fiskisúpa á boðstólnum

Réttirnir eru margbreytilegir frá degi til dags en í grunninn er uppbyggingin sú sama. Súpa dagsins var að þessu sinni fiskisúpa sem ég get fullyrt að hafi verið með þeim betri sem ég hef bragðað. Næst fékk ég mér ferskt og bragðgott laxasalat, sætkartöflusalat, þorsk og grafna nautalund allt dásamlega bragðgott. Meðlætin voru í sérstöku uppáhaldi, litrík og létt og alveg að mínu skapi.

IMG_5588

Þessi réttur var í miklu uppáhaldi

Aðalréttirnir voru klassíkir og flottir en þarna var hægt að velja um hangikjöt, kalkúnabringu og lambalæri ásamt meðlæti eins og kartöflusalati, rauðkáli, perusalati og svona mætti lengi telja. Að mínu mati skiptir gott meðlæti ekki síður jafn miklu máli og réttirnir sjálfir. Hér stóðst allt væntingar mínar.

IMG_5574

Klassískir réttir inn á milli

Eftir aðalréttina var ég komin með mína magafylli og vel það, en blessunarlega var þó smá pláss fyrir eftirréttina sem voru margir og ó svo girnilegir. Hér bragðaði ég á dásamlegum kökum sem nutu sín vel með kaffibollanum og settu punktinn yfir i-ið á góðum hádegisverði.

 

IMG_5512

IMG_5503

Á heildina litið er Haust hlýlegur og vel hannaður veitingastaður . Hádegisverðahlaðborðið er sérstaklega vel úti látið, með bragðgóðum og fjölbreyttum mat og hér ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Ég mæli svo sannarlega með því að þið gerið ykkur ferð á Haust og eigið þar notalega stund yfir góðum hádegisverði.

Hádegisverðarhlaðborð Haust er opið alla virka daga frá kl. 12-14.
Borðapantanir eru í síma 531-9020.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.