Víetnamskar sumarrúllur með hoisin sósu

Home / Forréttir / Víetnamskar sumarrúllur með hoisin sósu

Víetnamskar sumarrúllur með hoisin sósu
Sumarrúllur er víetnamskur réttur sem hentar sérstaklega vel sem forréttur.  Hann sameinar allt sem ég er svo hrifin af og er léttur, ferskur, litríkur, fallegur og bragðgóður.

Til að gera þennan rétt þarf að fara aðeins út fyrir þægindarammann í innkaupum, þar sem þið getið ekki búist við því að fá hráefnið í þennan rétt í hefðbundnum matvöruverslunum. En ég lofa því að það verður þess virði. Ég fór í Víetnam Market á Suðurlandsbrautinni og verslaði að mestu allt í réttinn þar á hagstæðu verði og fékk frábæra þjónustu og innblástur að næstu réttum.

Það að gera þennan rétt er gaman en kannski smá föndur við fyrstu gerð, en eftir það leikur einn. Ég byrjaði á sósunni enda gott að leyfa henni að standa aðeins.

Sumarrúllur – hráefni
Hrísgrjónatortillur (rice paper wrapper)
Heill kjúklingur (eldaður og rifinn niður), tofu eða risarækja
Mynta
Kóríander
Baunaspírur
Gulrætur, skornar í strimla
Agúrka, skorinn í strimla
Vermicelli núðlur, eldaðar með olíu og smá salti og kældar.Að sjálfsögðu er hægt að hafa grænmeti að eigin vali og um að gera að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn og prófa ykkur áfram.

Samsetning
Byrjið á að skera grænmetið, kjúklinginn/tofu og kryddjurtirnar og raðið öllu hráefninu á disk.Hitið pönnu með vatni (volgu/meðalheitu) og látið hrísgrjónatortilluna út í. Finnið hana mýkjast og takið upp úr þegar hún er orðin alveg mjúk (tekur ca. 30-40 sek). Látið hana á disk (einnig hægt að hafa blautt viskustykki á disknum til að koma í veg fyrir að hún festist).

Raðið hráefninu á tortilluna. Athugið að það sem þið látið fyrst, sést best. Ég lét kálblað fyrst, ef þið eruð með risarækjur er fallegt að hafa þær fyrst. Endið á að kreista lime yfir. Passið að hlaða ekki of miklu á rúlluna. Leggið (teygið) því næst annan endann yfir hráefnið, síðan hliðarnar á rúllunni yfir það (þá myndast umslag). Teygið síðan afganginn yfir rúllunna.

Ef þið þurfið að geyma rúllurnar skuluð þið láta þær í box með vætt viskustykku eða eldhúsrúllu yfir og undir þær, annars verða þær fljótt þurrar.
Hoisin hnetusmjörsósa
240 ml hoisin sósa (ef hún er of þykk bætið við smá vatni)
60 ml hnetusmjör
1 msk. hrísgrjónaedik
2 hvítlauksrif, maukuð
1/2 tsk chillímauk
Aðferð: Látið í blandara og blandað vel saman. Sett í kæli. Smátt saxaðar salthnetur muldar yfir áður en hún er borin fram.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.