Á virkum dögum er maður oft að glíma við tímaleysi þegar kemur að kvöldmat og oftar en ekki þarf maður að finna eitthvað fljótlegt og gott en er samt ekki tilbúin að gefa eftir í hollustunni. Þessi réttur er einmitt tilvalinn á svona dögum. Með tilbúnum grilluðum kjúklingi getur þessi réttur verið tilbúinn á innan við 15 mínútum. Hann bragðast frábærlega og krakkarnir voru sérstaklega hrifnir, enda er milt bragð af þessu og rétturinn ferskur. Þessi réttur er líka frábær sem hollt nesti eða hádegismatur. Með þessu hafði ég melónusalat með rauðlauki, fetaosti og ferskri myntu, en ég ætla ekki einu sinni að reyna að segja ykkur hversu mikið ég elska ferska myntu! Njótið, njótið og hugsið hlýlega til mín þegar þið eitt kvöldið eldið þennan holla, góða og fljótlega rétt í tímaþröng!
Heilsusamleg kjúklingavefja
2 kjúklingabringur, eldaðar og skornar í teninga
1/2 bolli kasjúhnetur
1/2 bolli agúrka, skorin í teninga
1/2 bolli gulrætur, rifnar
1/4 bolli rúsínur
salat að eigin vali t.d. lambahaga eða klettasalat
tortillur
Dressing
1 dós sýrður rjómi
1 msk majones
2 tsk agavesýróp
1/4 tsk salt
2 tsk karrý
Aðferð
- Blandið öllum hráefnunum fyrir dressinguna saman í skál og blandið vel saman.
- Bætið öllum hráefnunum nema tortillum og salati og blandið saman við dressinguna.
- Ef þið hafið tök á er gott að leyfa blöndunni að geymast í kæli í klukkutíma.
- Hitið tortillurnar þar til volgar og látið kálið á miðja tortilluna, síðan kjúklingablönduna.
- Tortillan rúlluð upp og etin!
Leave a Reply