Dásamlegar & danskar eplaskífur

Home / Bröns / Dásamlegar & danskar eplaskífur

Eplaskífur hafa fylgt mér frá barnæsku enda er mamma hálf-dönsk og fyrir okkur var það að fá eplaskífur svipað og að fá pönnukökur. Strákarnir mínir sögðu að þessi uppskrift yrði að fara inn á síðuna enda elska þeir að fá eplaskífur og finnst skemmtilegt að koma með vini sína í heimsókn og kynna fyrir þeim þessum rétti sem mörgum er ókunnur. Að baka eplaskífur er ótrúlega hyggeligt og það er mér bæði dýrmætt og ánægjulegt að geta haldið þessari hefð.

Eplaskífur eru eitt algengasta kaffibrauð í Danmörku. Upphaflega voru eplaskífur eplasneiðar sem dýft var í deig og síðan steikt. Í tímanna rás hafa eplin síðan einhverra hluta vegna horfið úr uppskriftinni en nafnið engu að síður haldist. Hjá mér kemur ekki annað til greina en að hafa kanillegna eplabita í eplaskífunum, enda setja eplin að mínu mati algjörlega punktinn yfir i-ið og gefa heimilinu einstaklega góðan jólailm.

Hér er klárlega komin góð hugmynd að jólagjöf! Grófgerð og fögur eplaskífupanna ásamt uppskrift að þessum ómótstæðilegu eplaskífum sem heilla alla sem þær bragða.

Dásamlegar & danskar eplaskífur
1 grænt epli, skorið í litla bita
kanilsykur
250 gr hveiti
fínrifinn börkur af einni sítrónu (passið að börkurinn sé fínrifinn)
1 msk sykur
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
3 egg
400 ml súrmjólk
50 gr bráðið smjör til steikingar

Aðferð

  1. Látið eplabitana í skál með kanilsykri. Blandið vel saman og takið til hliðar.
  2. Hrærið öllum hinum hráefnunum, nema smjörinu, saman í skál. Hér er gott að leyfa deiginu standa aðeins þannig að sítrónan nái að skila sínu ferska bragði.
  3. Hitið pönnuna á meðalhita og penslið smjöri í holurnar.
  4. Hellið deigi í um það bil 3/4 hluta af holunni. Stingið eplabita í miðjuna.
  5. Þegar það er komin skorpa að neðan er þeim snúið við með grillpinna eða gaffli. Gert nokkrum sinnum þar til skorpan er stökk og gullin og eplaskífan örugglega elduð í gegn.
  6. Látið feiti reglulega í holurnar á milli umganga þannig að eplaskífurnar festist ekki við pönnuna.
  7. Setið eplaskífurnar á fat eða í skál. Og stráið flórsykri yfir þær með sigti og dáist að því hversu fallegar og girnilega þær verða.
  8. Berið fram með góðri sultu og jafnvel jólaglöggi..já svei mér þá væri það ekki hyggeligt?

Mamman búin að slá í gegn!

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.