10 góð ráð fyrir verðandi bloggara og aðra í leit að innblæstri!

Home / Ýmislegt / 10 góð ráð fyrir verðandi bloggara og aðra í leit að innblæstri!

 2013-09-19 09.11.53


Í dag, 19. september 2013, er eitt ár síðan ég byrjaði með vefsíðuna mína GulurRauðurGrænn&salt. Ég horfi stolt til baka og er ánægð með að hafa kýlt á þetta á sínum tíma. Í dag hef ég náð þeim markmiðum sem ég setti mér fyrir þetta fyrsta ár. Nú taka ný markmið við.

Ég hef oft verið spurð að því hver hafi verið kveikjan að síðunni GulurRauðurGrænn&salt.  Í byrjun var það augljóst og þeirri spurningu auðsvarað. Ég var nýkomin frá Barcelona úr dásamlegu fríi sem einkenndist af sól, hvíld og hrikalega góðum mat og sú ferð gaf mér mikinn innblástur.

2012-08-17 22.23.45
En eftir því sem á líður átta ég mig á því að hugmyndin kviknaði í raun fyrr. Ég naut þess heiðurs að starfa í nokkur ár á legudeild Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) sem ég vil meina að sé besti vinnustaður sem hugsast getur. Þar leið mér vel, lærði margt og kynntist dásamlegum börnum, unglingum og fjölskyldum þeirra.  Í þessu starfi spurði ég skjólstæðinga mína oft spurninganna:  Í hverju ertu góð/ur ? Hverjir eru þínir hæfileikar? Allir eru góðir í einhverju og allir hafa einhverja hæfileika.  En oft fer stór hluti af tíma fólks í að tala sig niður og hæfileikarnir fara í felur. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað það gerist margt gott þegar fólk spyr sig þessara spurninga og leitar svara. Það opnast nýjar dyr. Svo er bara spurning um að þora að fara þangað inn.

Það er hins vegar ekki hægt að spyrja aðra svona spurninga án þess að þær snerti mann sjálfan líka. Þessar spurningar snertu mig og ég fór að leita að mínum hæfileikum. Í hverju var ég góð? Hvað fannst mér skemmtilegt? Um leið og ég fór að velta þessu fyrir mér gerðist það. Dyrnar opnuðust. En halló –  matarbloggari? Var þá málið? Dyrnar voru opnar og já, ég ákvað bara að treysta. Fara inn og sjá hvert þetta myndi leiða mig.

cover

Ári síðar eru tækifærin óendanleg. En það sem meira er, ég hef svo virkilega gaman að því sem ég er að gera. Ég hlakka til að takast á við verkefni dagsins og ef að það eru ekki forréttindi þá veit ég ekki hvað. Ég er full þakklætis!

Á eins árs afmælinu langaði mig að gera eitthvað öðruvísi. Það hefur lengi blundað í mér að gefa ráð til fólks sem er að stíga sín fyrstu skref í bloggheiminum. Ég skellti mér í það verkefni og endaði með tíu ráð. Þeir sem hafa áhuga á að gera eitthvað annað, eitthvað nýtt, geta að sjálfsögðu látið þessa punkta verða sér innblástur.

Að lokum þakka ég fyrir þá hvatningu sem ég hef fengið frá ykkur kæru lesendur, hún gleður.

10 góð ráð fyrir verðandi bloggara – og aðra í leit að innblæstri! 

  1. Um hvað ætlar þú að skrifa?
    Skrifaðu um það sem þú hefur ástríðu fyrir.  Hvað er það sem þú færð ekki leið á að ræða um og velta fyrir þér. Veltu fyrir þér spurningunni:  Í hverju er ég góð/ur? Um leið og þú hefur fundið það ertu á réttri leið.
  2. Segðu það upphátt.
    Talaðu við þína nánustu um það að þú ætlir að blogga. Ræddu um það sem þig langar að blogga um og hvernig þú hefur hugsað þér að gera það. Þú færð kannski smá aulahroll við að gera þetta, en engu að síður er þetta mikilvægt skref að taka og sýnir að þú ætlar að gera þetta af alvöru.
  3. Byrjaðu.
    Þú getur alltaf fundið ástæður fyrir því að byrja ekki. Það er of mikið af bloggsíðum nú þegar. Ég kann ekki að taka nægilega góðar myndir. Ég veit ekki hvað ég ætti að segja. Ég er enginn rithöfundur. Aðrir eru svo miklu betri en ég. Og það sem er algengast af öllu: Ég er hrædd/ur við að mistakast! Afsakanirnar eru endalausar en ýttu þeim til hliðar og byrjaðu. Helst í dag. Bloggið byrjar kannski ekki vel, lesendur eru fáir, ljósmyndirnar ekki fallegar en um leið og þú ert komin af stað þá ertu byrjuð/byrjaður að læra. Láttu ekkert stöðva þig.
  4. Vertu þú sjálf/ur.
    Notaðu þína eigin rödd þegar þú skrifar. Ekki reyna að vera einhver annar en þú ert. Lesendur finna það um leið. Hafðu skrif þín ekta og frá hjartanu. Ef þú ert ekki fyndinn, ekki reyna það. Ef þú ert ekki klár, ekki reyna að vera það. Haltu þig við þinn persónuleika. Eins og í lífinu sjálfu þá munu sumir fíla þig, aðrir ekki.  En með því að vera þú sjálfur, skrifa um það sem þig langar að skrifa um og leyfa þér að njóta þín án þess að spá í hvað öðrum finnst, er mun líklegra að þú laðir til þín trygga lesendur.
  5. Segðu það með myndum.
    Myndir segja meira en mörg orð, hvort sem um er að ræða mat, tísku, menningu eða ferðalög. Prófaðu að skoða bók á þínu áhugasviði sem inniheldur engar myndir og síðan aðra sem er full af fallegum myndum. Hvora heldur þú að líklegra sé að þú notir? Þótt það séu fáir sem byrja á því að taka fullkomnar myndir er mikilvægt að reyna stöðugt að bæta sig í því. Góðar myndavélar eru sífellt að verða ódýrari og það er aldrei ofsagt að æfingin skapar meistarann.
  6. Skrifaðu reglulega.
    Settu þér það markmið að skrifa reglulega og að lágmarki einu sinni í viku, helst tvisvar til þrisvar og þá sérstaklega í byrjun meðan að bloggið er óþekkt og færslurnar fáar. Það eru algeng mistök að byrja á að skrifa mjög oft í viku en missa síðan dampinn þegar á líður og skrifa þá mun sjaldnar og óreglulega. Ef lesandinn upplifir ekki að færslurnar komi með reglulegu millibili er líklegt að hann hætti að kíkja inn á síðuna.
  7. Fáðu ráð hjá öðrum.
    Hlustaðu. Algengustu mistökin sem fólk gerir í lífinu er að hlusta ekki. Hlustaðu á það sem lesendur þínir og fólkið í kringum þig segja þér og ráðin sem þau gefa þér. Endurskoðaðu þig reglulega. Það eru forréttindi að mega skipta um skoðun!  Settu þig í samband við þá sem eru nú þegar að blogga. Kynntu þig og segðu frá því sem þú ert að gera og spurðu þá út í það sem þú veist ekki en langar að vita. Þessir aðilar hafa sjálfir verið í þessum sömu sporum og muna eftir því hvernig það var að byrja. Langflestir taka vel  í svona spurningar og reyna að leiðbeina eftir bestu getu. Gerðu svo það sama fyrir aðra. Ekki vera hrædd/ur við að hrósa þeim sem eru að gera vel og hvetja þá áfram sem eru sjálfir að byrja. Karma my friend!
  8. Nýttu þér miðlana.
    Stofnaðu facebook-síðu, farðu á twitter, pinterest og birtu myndirnar þínar á instagram. Allt þetta hjálpar til. Því oftar sem fólk sér það sem þú ert að gera, því meiri líkur eru á að það muni eftir þér.
  9. Ekki gefast upp.
    Ég ætla ekki að ljúga að ykkur. Það að halda úti bloggi og byggja upp tryggan lesendahóp kostar gríðarlega mikla vinnu, tekur mikinn tíma og kostar peninga.  Settu þér langtímamarkmið.  Hvar sérðu bloggið eftir hálft ár, eitt ár eða jafnvel tvö.  Suma daga virðist allt ómögulegt og innblásturinn vanta. Leyfðu þér þá að taka smá pásu. Haltu síðan ótrauð/ur áfram og ekki gefast upp!
  10. Jeeeeiiiii gaman!
    Mundu af hverju þú byrjaðir að blogga. Þú hafðir gríðalega mikinn áhuga og ástríðu fyrir einhverju og langaðir til að deila því með öðrum, ekki satt?  Þeir sem byrja á því að blogga detta líklega langflestir í það að einblína á það sem aðrir eru að gera, á facebook“læk“, eða heimsóknartölur. Ekkert slæmt um það að segja ef það gefur þér innsýn í það hvernig þér gengur og hvetur þig áfram. En ef tölurnar eru farnar að kvelja og pína, hættu þá að fylgjast með þeim. Haltu þínu striki, á þinn einstaka hátt og hafðu sjúklega gaman af!


Leave your comment to Cancel Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.