Kjúklingaréttur með þistilhjörtum
Þegar maður kemst á bragðið með að borða þistilhjörtu er erfitt að hætta. Fersk eru þau einhver allra fyrirhafnarmesti matur sem finnst – og í þokkabót grátlega lítið ætt af hverju og einu. En bragðið heldur manni við efnið. Marineruð í olíu í krukku eru þau aðeins auðveldari viðfangs. Og ekkert síðri. Þau eru uppistaðan með kjúklingnum í þessum dúndurgóða suðræna pottrétti sem fær sálartetrið til að mala og lygna aftur augunum.
fyrir 4-6
Eldunartími 50 mínútur
1.5 kg kjúklingabitar að eigin vali
2 laukar, gróflega skornir
500 g. sveppir, skornir í fernt
1-2 krukkur þistilhjörtu, án vökva
2 msk dijon sinnep
4 hvítlauksrif, pressuð
60 ml ólífuolía
60 ml rauðvínsedik
60 ml kjúklingakraftur eða rauðvín
1 tsk basil, þurrkað
1 tsk timían, þurrkað
salt og pipar
- Látið kjúklingabitana í ofnfast mót og setjið laukinn, sveppina og þistilhjörtun síðan yfir það.
- Blandið afganginum af hráefnunum saman í skál ásamt salti og pipar og hellið yfir allt.
- Eldið við 190°C í 40-50 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Penslið kjúklinginn af og til með marineringunni sem hann liggur í.
Leave a Reply