Gestabloggarinn Ragga Nagli

Home / Gestabloggarinn / Gestabloggarinn Ragga Nagli

Það er ekki eingöngu þegar að maður er lítið barn sem maður velur sér fyrirmyndir í lífinu. Fyrirmyndirnar hafa að sjálfsögðu breyst eftir því sem árunum hefur fjölgað og nú eru fyrirmyndirnar mínar meðal annars fólk sem er einlægt, hefur jákvæðni að leiðarljósi, býr yfir einstakri reynslu sem það nær að miðla áfram og er að því er virðist óhrætt við að stíga út fyrir þægindarammann.

Gestabloggarinn að þessu sinni hefur þetta allt og svo miklu meira. Hún er hún sjálf út í gegn, fyndin, einlæg, mannleg og skemmtileg. Ég býð alltaf spennt eftir pistlum frá henni og elska það hversu “spot on” hún er ávallt, meira að segja þegar hún þykist stíga feilspor.

Það er mér bæði heiður og forréttindi að bjóða Röggu Nagla velkomna sem gestabloggara. Hingað er hún mætt með skemmtilegan texta og uppskrift af ómótstæðilegri Súkkulaðikókos ostaköku sem þið hreinlega verðið að prufa. Ragga er sjálf með skemmtilega heimasíðu þar sem finna má uppskriftir og ýmsan fróðleik. Ég gef Naglanum orðið og vona að þið njótið, njótið, njótið!

 

25 (1)Ragga Nagli

Ég heiti Ragnhildur Þórðardóttir, 34 ára gömul og bý í Kaupmannahöfn. Ég er klínískur heilsusálfræðingur, pistlahöfundur, einkaþjálfari, matarbloggari, heilsufrík, lyftingamelur, eiginkona, dóttir, systir og matargat.

Ég er með M.Sc í Health psychology frá Háskólanum í Surrey á Englandi, Cand. Psych í klínískri sálfræði frá Háskólanum í Kaupmannahöfn og tvær einkaþjálfaragráður.

Ég vinn sem sálfræðingur í Köben, aðallega með hugræna atferlismeðferð varðandi hugarfar og hegðun í kringum mataræði og hreyfingu, og hvernig við getum breytt innra samtalinu til að halda okkur valhoppandi í heilbrigðum lífsstíl.

love

Ég byrjaði að skrifa um heilsutengd málefni árið 2005 þegar ég var í Mastersnámi í Bretlandi. Tilgangurinn var að fræða sjálfa mig og aðra í leiðinni um hin ýmsu mál tengdum hreyfingu, mataræði og heilsusamlegu líferni. Til að brjóta upp þennan hefðbundna pistlastíl krydda ég pistlana með minni orðanotkun sem er öðruvísi en fólk á að venjast og tala um mig í þriðju persónu sem Naglann og fæ þannig nýja nálgun á hlutina.

Ég byrjaði á Moggablogginu, færði mig síðan yfir á Eyjuna, þaðan á Heilsupressuna og var umsjónarmaður þar í u.þ.b eitt ár þegar ég fékk ritstíflu og leið á kvabbinu í sjálfri mér. Þá tók ég mér rúmlega árs pásu frá skrifum og veraldarvefnum, og sinnti kandídatsnáminu og starfi mínu sem fjarþjálfari. Þá fór mig að klæja í puttana að hamra á lyklaborðið og henti loks upp Facebook síðu undir Ragga Nagli í janúar 2013 sem hefur vaxið og dafnað eins og þybbið lamb að hausti.

r3

Ég er ólympískt matargat, og hugsa stöðugt um næstu fóðrun, og eftir að hafa verið óhamingjusöm múlbundin í myrkrinu í áratug, fangi eigin ímyndunarafls að éta þurran túnfisk og eggjahvítur, fann ég að ef þetta ætti að verða lífsstíll þyrfti ég að finna nýja nálgun á mataræðið.

Ég get ekki fengið mér bara skyr og epli. Það gleður mig einfaldlega ekki.. Ég þarf að nostra við matinn minn til að vera hamingjusöm. Ég myndi taka eplið og baka það með kanil og hræra því svo saman við skyrið með sykurlausu pönnukökusírópi. Þá er ég glöð. Þess vegna fór ég að grúska og gramsa í uppskriftum á netinu að búa til hollar útgáfur af allskyns góðgæti, og þannig mætti sameina þann fitness lífsstíl sem ég hef kosið mér og samtímis halda þessu síöskrandi kökuskrímsli inni í mér til friðs.

IMG_6841 (1)

Ég er þeirrar skoðunar að það sé pláss fyrir allt í heilsusamlegum lífsstíl. Boð og bönn og merkimiðar um “góðan” og “slæman” mat býr til neikvætt samband við mataræðið, og getur aldrei orðið lífsstíll.

Ég flétta allskonar gómsæti inn í planið mitt, til dæmis með að taka það eftir æfingu, eða í skipulögðum frjálsum máltíðum.

Heilsa fyrir mér snýst um jafnvægi. Jafnvægi milli þess að hreyfa mig mikið, og hugsa vel um hvað og hversu mikið ég læt ofan í mig 90-95% tímans, en leyfa mér síðan gúmmulaði af og til með góðri samvisku.

Heilsa verður að vera lífsstíll, en ekki átak með síðasta söludag!

ragganagli1

 Súkkulaðikókos ostakaka
Á sunnudögum býr Naglinn til fjórfalda uppskrift af ostaköku, sker hana í fjóra parta (dööhh…) og graðgar einum fjórðungi í smettið í kvöldsnæðingum yfir vikuna. Hinar ýmsu bragðvaríasjónir eins og súkkulaðikaramellu og vanilluhindberja hafa litið dagsins ljós upp á síðkastið. Allar jafn unaðslega gómsætar, og maður á víst ekki að gera upp á milli barnanna sinna eeennn… ef Naglinn stæði frammi fyrir Stóra Dómi á morgun yrði súkkulaðikókos ostakakan fyrir valinu sem nestið á eyðieyjuna.

IMG_5977 (1)

Botn
80g NOW möndlumjöl (Fjarðarkaup, Hagkaup, Lifandi Markaður)
20g kókoshnetuhveiti
12 g Fiber Sprinkle (gefur krönsj undir tönn, má líka nota mulið hrökkbrauð)
1 eggjahvíta
1 dl möndlumjólk

Fylling
450g kotasæla
250 g kvark/hreint skyr/grísk jógúrt (1%)
2 msk NOW erythriol (Fjarðarkaup, Hagkaup, Lifandi Markaður)
1 msk Walden Farms Marshmallow Dip (má sleppa)
1 tsk súkkulaði sykurlaust Jello pudding mi
1.5 msk Hershey’s ósætað kakó (Kostur)
NOW kókoshnetudropar

  1. Hræra allt gumsið sem fer í botninn  saman þar til það verður að deigi og hnoða í kúlu.
  2. Setja kúluna á smjörpappírsklæddan botn af smelluformi (20-25 cm í þvermál)
  3. Setja annan smjörpappír yfir kúluna og fletja út með kökukefli þar til botninn hefur fyllt út í kantana.
  4. Henda lummunni í 160°C heitan ofn í c.a 10 mínútur meðan fyllingin er preppuð.
  5. Hræra öllu í fyllinguna saman með töfrasprota.
  6. Hella yfir botninn sem ætti nú að vera orðinn fallega gullinbrúnn eins og strætisköttur á heitu tinþaki.
  7. Inn í ofn í 30-35 mínútur. Kakan á ekki að vera bökuð í öreindir heldur að vera aðeins “wobbly” þegar hún kemur úr sólbaðinu. Hún heldur nefnilega aðeins áfram að bakast og taka sig eftir á.
  8. Svo er kvikindið toppað með horuðum þeyttum “rjóma” úr undanrennu, horaðri súkkulaðisósu og ósætuðum kókosflögum.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.