Þetta fallega pestófyllta fléttubrauð er hluti af færslu sem birtist frá GulurRauðurGrænn&salt í fermingarblaði Morgunblaðsins á dögununum en hér er á ferðinni brauð sem gaman er að bera fram í veislum. Brauðið er mjúkt og bragðgott og lítur skemmtilega út. Það má fylla með í rauninni hverju sem er, pestó að eigin vali, sólþurrkuðum tómötum, fetaosti og um að gera að prufa sig áfram. Þið vekjið lukku með þetta ljúffenga brauð á borðunum.
Pestófyllt fléttubrauð
240 ml volgt vatn
2 tsk þurrger
360 g hveiti
1 msk ólífuolía
1 tsk salt
basilpestó, t.d. frá Sacla
parmesan, rifinn
- Látið vatnið í skál og stráið þurrgerinu yfir. Leyfið að standa í 10 mínútur en á þeim tíma ætti gerið að byrja að freyða.
- Bætið hveiti, olíu og salti saman við og hnoðið deigið vel. Bætið við hveiti eftir þörfum. Mótið kúlu úr deiginu og setjið í olíuborna skál. Látið lyfta sér í um klukkustund eða þar til deigið hefur tvöfaldast.
- Fletjið því næst deigið út á hveitistráðu borði þar til þið hafið myndað ferhyrning ca. 45 x 30 cm á stærð. Látið þá vel af pestó á deigið og rúllið því síðan upp. Skerið því næst rúlluna til helminga á lengdina. Festið endana saman efst og fléttið bitana saman og látið sárið snúa sem mest upp. Tengið að lokum endana saman þannig að úr myndist krans. Færið yfir á bökunarplötu hulda smjörpappír og leyfið að lyfta sér í um 20 mínútur.
- Rífið parmesanost yfir brauðið og bakið í 200°c hita í um 30 mínútur.
Leave a Reply