Undanfarin ár hafa orðið miklar breytingar á veitingahúsaflóru íslendinga og nú má finna æ fleiri staði sem leggja áherslu á hollan og næringaríkan skyndibita.
Meðal þeirra er lítill og dásamlegur veitingastaður sem heitir Local en hann er staðsettur í Borgartúni 25. Þessi staður er í miklu uppáhaldi hjá mér en þar má finna ótrúlega girnileg, litrík og bragðgóð salöt, samlokur, súpur, ferskan djús og hráfæðirétti og er þetta hinn fullkomni staður þegar mig langar í mat sem er ekki aðeins dásamlega bragðgóður heldur einnig góður fyrir sálina.
Ég lagði leið mína þangað í hádeginu um daginn með góðri vinkonu og maturinn sem við fengum var gjörsamlega út úr þessum heimi góður.
Ég pantaði mér Local Teriyaki salat sem inniheldur Teriyaki kjúkling, brauðteninga, parmesan ost, cashew hnetur og rauðlauk ásamt Local Japanese dressingu. Saltið var jafn gott og það lítur út fyrir að vera, eða nei..betra!
Teriyaki kjúklingasalatið sló í gegn
Vinkona mín fékk sér Sesamsalat sem er salat með kjúklingi, agúrku, strengjabaunum, sesamolíu, sesamfræjum, kirsuberjatómötum og sætri kartöflu en það var hreint út sagt frábært líka.
Sesamsalatið er litríkt og ljúffengt
Í eftirrétt fengum við okkur svo þessa dásamlegu hráfæðisúkkulaðibita með sjávarsalti sem settu svo sannarlega punktinn yfir i-ið á þessum góða hádegismat og þið verðið hreinlega að prufa.
Þessir settu punktinn yfir i-ið..jummí
Salötin sem hafa verið í mestu uppáhaldi hjá mér eru Sushisalatið og Mexíkósalatið. Eftir því sem ég prufa fleiri kemst ég hinsvegar að því að erfitt er að eiga eitt uppáhalds, þau eru öll svo góð. Svei mér þá samt ef Teriyaky salatið náði ekki að toppa allt í þessari heimsókn, það var rosalegt.
Ég get í raun ekki hrósað matnum á Local nægilega en mæli svo sannarlega með að þið leggið leið ykkar þangað ef þið hafið ekki gert það nú þegar. Maturinn á Local er ekki bara bragðgóður heldur eru skammtarnir vel útilátnir og verðlagið eins og það gerist best.
Leave a Reply