Trylltar Flødeboller að hætti dana

Home / Kökur & smákökur / Trylltar Flødeboller að hætti dana

IMG_7462 IMG_7467 IMG_7502

Það er langt síðan ég hef verið jafn spennt að deila með ykkur uppskrift og ég er einmitt nú. Hver kannast ekki við danskar flødeboller, þessar sem maður þorir ekki að kaupa nema til að deila með öðrum því annars er maður búinn með kassann áður en maður veit af. Ég hef aldrei prufað að baka svona sjálf og því var ég bæði spennt og smá kvíðin þegar það skref var tekið. En það var óþarfi því þessar eru ofureinfaldar í gerð og mjög skemmtilegt að útbúa. Það sem er kannski óvenjulegt er sú staðreynd að hér er notað glúkósasýróp. Það fæst til að mynda í Hagkaup og tegundin sem ég notaði var Light Corn Syrup frá Essential Everyday, alveg ómeðvituð um hvort það sé betra en eitthvað annað. Einnig er notaður hitamælir til að mæla hitann á sykrinum við suðu en hann þarf að vera 117 gráður – ég notaði kjöthitamæli í það.  Annað er leikur einn og þessar Flødeboller eru  í einu orði sagt trylltar!

 

Danskar Flødeboller
Ca 24 stk
Botn
400 g marsipan
smá flórsykur

Fylling
250 g sykur
75 ml vatn
110 g glykósasýróp (t.d. light corn syrup frá essential)
140 g gerilsneiddar eggjahvítur
15 g sykur

Hjúpur
400 g súkkulaði  (ég notaði blöndu af hjúpsúkkulaði og suðusúkkulaði)

  1. Stráið smá flórsykri á borðplötu og fletið marsipanið út og skerið út hringi með t.d. espressobolla eða álíka litlum hring. Hafið marsipanið um 3-5 mm á þykktina og leggið á ofnplötu með smjörpappír.  Bakið við 180°c í um 7-8 mínútur. Takið úr ofninum og kælið.
  2. Gerið því næst fyllinguna með því að láta eggjahvíturnar og 15 g af sykri saman í hreina og þurra hrærivélaskál. Ekki byrja að hræra strax heldur geymið.
  3. Setjið vatn, síróp og 250 g af sykri saman í pott og hitið rólega þar til blandan hefur náð nákvæmlega 117 gráðum. Þegar sykurmassinn hefur náð nálægt 110 gráðum skulu þið byrja að hræra eggjahvíturnar og sykurinn sem þið höfðuð undirbúið. Hrærið þar til þær eru orðnar léttar og ljósar. Þegar sykurmassinn hefur náð 117 gráðum skulu þið hella honum varlega saman við eggjahvíturnar og halda áfram að hræra á fullum krafti í um 10 mínútur eða þar til fyllingin er orðin stíf og glansandi.
  4. Setjið fyllinguna í sprautuform og sprautið á marsipanið (ég notaði stút 2D frá Wilton). Látið standa í 1-2 klukkutíma við stofuhita svo þær stífni aðeins upp og einfaldara sé að setja súkkulaðið á.
  5. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Leyfið súkkulaðinu að kólna áður en það er sett á bollurnar því annars falla þær. Gott er að setja súkkulaðið á með því að halda á bollunum yfir skál með brædda súkkulaðinu og láta súkkulaðið leka yfir bollurnar með skeið. Setjið á smjörpappír, stráið kókos yfir eða annað sem hugurinn girnist.
    Geymið bollurnar í kæli og njótið vel!

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.