Gestabloggarinn Helga Garbíela – Pizza með ofnbökuðum rauðrófum, mýktum lauk, valhnetum og geitaosti.

Home / Gestabloggarinn / Gestabloggarinn Helga Garbíela – Pizza með ofnbökuðum rauðrófum, mýktum lauk, valhnetum og geitaosti.

Ég er bæði stolt og spennt að kynna næsta gestabloggara til leiks. Þetta er hún Helga Gabríela sem heldur úti matarblogginu helga-gabriela.com þar sem hún birtir hollar, frumlegar og svo gjörsamlega ómótstæðilegar uppskriftir og birtir fallegar ljósmyndir með. Ég get óhikað sagt að hún er einn af mínum uppáhalds matarbloggurum hér á Íslandi.
Helga Gabríela var einmitt að byrja í kokkanámi og er komin á saming á VOX restaurant. Hver veit nema þessi upprennandi unga stjarna opni sinn eigin veitingastað í framtíðinni. Eitt er víst að ég mun amk. mæta þangað.

Processed with VSCOcam with f2 preset

Helga Gabríela eldaði á dögunum þessa himnesku pizzu með ofnbökuðum rauðrófum, valhnetum og geitaosti sem hún samþykkti með glöðu geði að gefa okkur uppskriftina af og verður klárlega á boðstólnum heima hjá mér í kvöld. Njótið vel, að þessu sinni í boði Helgu Gabríelu.

pizza_pic

Heimagerð pítsa með ofnbökuðum rauðrófum, mýktum lauk, valhnetum og geitaosti
Þarf að segja eitthvað meira. Þessi útgáfa heppnaðist alveg þrusuvel. Alltaf gaman að prufa eitthvað nýtt og öðruvísi ofaná pítsuna, ekki satt?

Pítsabotn:
144 gr heitt vatn
3 tsk þurrger
1 ½ msk hunang
1 ½ msk góð ólífuolía
360 g hveiti (það gæti þurft aðeins minna eða meira)
1 tsk salt
1 tsk hvítlaukskrydd
1 tsk þurrkuð basilíka
2-3 msk bráðið smjör, ósaltað
2 hvítlauksrif, pressuð
2 msk parmesan ostur

  1. Hrærið ger, ólífuolíu og hunang út í heitt vatn í skál og látið standa í 10 mínútur eða þar til þetta er byrjar að freyða.
  2. Því næst er þurrefnunum blandað saman við, ég set þetta gjarnan í matvinnsluvél með hnoðara. Vinnið deigið þar til að réttri áferð er náð þ.e. deigið á að vera, örlítið klístrað en samt mjúkt og gott til að vinna með.
  3. Hnoðið deigið í kúlu og hellið smá ólífolíu yfir og leyfið deiginu að hefast í skál með hreinum klút yfir í 1-2 klst.

Hráefni
1-2 litlar rauðrófur / ferskt timían /geitaostur / klettasalat / ristaðar valhnetur
/ balsamic sýróp / geitaostur / 2 laukar, skornir í þunnar sneiðar / 2 msk bráðið smjör, ósaltað / Óðalsostur, rifinn.

  1. Meðan degið er að hefast hugum við að rauðrófunum. Rauðrófur hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég nota þær mikið þegar ég útbý ferskan safa eða í súpur, hummus og hvað þá ofnbakaðar ofaná pítsu eða í salöt. Þessi ágætis rófa er eflaust ekki efst á innkaupalistanum hjá mörgum en með hugmyndaflugi og einfaldleika í huga verður hún að hinum besta hráefni.
  2. Byrjið á því að hita ofninn í 200°. Flysjið rauðrófurnar og skerið þær í sneiðar, ekki of þunnar samt. Færið þær yfir í eldfast mót og veltið þeim upp úr góðri ólífuolíu, balsamic vinegar og hunangi ásamt timían, nýmöluðum pipar og salti. Bakið þær með loki/álpappír yfir í 1 klst.
  3. Því næst er pannan hituð með 2 msk af smjöri. Skerið laukinn niður og skellið honum útá þegar smjörið hefur bráðnað. Mýkið laukinn við vægan hita í klukkustund, gott að bæta smá púðursykri við í lokin til að fá laukinn „extra“ karamelliseraðann.
  4. Meðan rauðrófurnar og laukurinn eru að eldast bræðið þá restina af smjörinu og blandið því saman við hvítlaukinn og parmesan ostinn.
  5. Þegar deigið er tilbúið, fletjið það út og penslið hvítlauks-parmesan blöndunni yfir pítsabotninn. Stráið ostinum yfir ásamt lauknum og bakið pítsabotninn í 30-35 mín við 180° eða þar til botninn er kominn með fallegan gylltan lit.
  6. Endið á að setja klettasalatið yfir pítsuna ásamt, bökuðu rauðrófunum, geitaosti og ristuðum valhnetum. Upplagt að „drissla“ smá balsamic sýrópi yfir til að fullkomna þetta.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.