Grillað lambalæri með bláberja- og hunangsmarineringu

Home / Grillmatur / Grillað lambalæri með bláberja- og hunangsmarineringu

Könguló könguló vísaðu mér á berjamó!
Eftir þetta dásamlega sumar er berjauppskeran í hámarki og falleg og safarík ber finnast víða. Hvort sem á að nýta berin í sultur, eftirrétti, kökur eða hristinga þá hvetjum við ykkur til að skella ykkur út í náttúruna í berjatínslu.

Fyrir fólk sem veit ekki hvar það á að byrja þá eru góð svæði á höfuðborgarsvæðinu er hægt að fara í Heiðmörk, að Esjurót­um, að Trölla­fossi nú eða í Hafn­ar­fjarðar­hraun og í Elliðaár­dal. Einnig eru góð svæði á Þing­völl­um, í Gríms­nesinu og við Grafn­ing­inn. Snillingarnir hjá 17 sortum eru að gefa stórar fötur sem hentar einstaklega vel undir berin, kíkið í kaffi og köku til þeirra og kippið með ykkur fötu. Þá ætti eftirleikurinn ekki að vera neitt mál, bara gefa sér góðan tíma og muna að njóta.

Bláber eru dásamleg og lambalærið er það líka þannig að þegar þetta tvennt kemur svo saman erum við komin með blöndu sem getur ekki klikkað. Hér marinerum við lambalærið í bláberjum, hunangi, hvítlauk og rósmarín en uppskriftina að marineringunni fékk ég af síðunni hennar Sillu en hún er þvílíkur listakokkur og heldur úti matarblogginu Sillaskitchen. Lambalærið er marinerað með bláberjum, hvítlauk, rósmarín og hunangi og er himneskt í alla staði. Við grilluðum svo lærið, en það er ofureinfalt og í raun eina sem þarf að hafa í huga er að hafa slökkt á brennara þeim meginn sem lærið er. Svo grillast það svona fallega meðan meðlætið er undirbúið og rauðvín sötrað undir ljúfum tónum.

 

IMG_3608

Girnilegt er það!

Grillað lambalæri með bláberja- og hunangsmarineringu
2 – 2 1/2 kg lambalæri
2 dl bláber (fersk eða frosin)
2 msk hunang
2 stilkar rósmarín
4 stilkar timían, laufin tekin af
4 hvítlauksrif
salt og pipar
olía

  1. Maukið bláber, kryddjurtir, hunang og hvítlauk gróflega saman. Kryddið með salti og pipar. Skerið raufar í lærið og hellið marineringunni yfir. Leyfið síðan kjötinu að marinerast í klukkustund eða yfir nótt, eftir því sem tími leyfir.
  2. Hitið grillið. Leggið kjötið síðan á grillið og slökkvið á brennararnum sem er þeim helmingi sem kjötið liggur á. Þá þarf ekki að pakka því inn í álpappír og kjötið fá dásamlegt grillbragð. Grillið í um 1 ½ klst eða þar til kjöthitamælirinn sýnir um 60/70°.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.