Matarkjallarinn / Food Cellar er grill & kokteilbar þar sem lögð er áhersla á brasserie matargerð úr íslensku hráefni eins og það gerist best. Þegar kvöldið fjarar út og nóttin tekur við breytist Matarkjallarinn í kokteilbar með ljúfri “lounge” stemmningu og lifandi tónlist.
Matarkjallarinn opnaði í vor og hefur síðan þá náð að stimpla sig inn hjá mörgum sem einn af vinsælustu veitingastöðum landsins.
Hlýleg og töff hönnun
Ég heimsótti Matarkjallarann eitt hádegið nýlega en ástæðan heimsóknarinnar var einfaldlega sú að ég hafði heyrt úr ýmsum ótengdum áttum svo vel látið af þessum stað. Ef það er eitthvað sem ég læt ekki fram hjá mér fara er tækifæri til að borða góðan mat.
Svo dásamlega huggulegt!
Það fyrsta sem maður tekur eftir er maður gengur inn á Matarkjallarann er hversu fallega og skemmtilega hannaður staðurinn er. Ljósakrónur úr flöskum, málverk með fiskum, fallegir bekkir og fleira sem gefur staðnum bæði töff og hlýlegt útlit. Á Matarkjallaranum er mikið lagt upp úr góðri þjónustu og um leið og gengið er inn mætir þér starfsfólk með bros á vör sem fylgir þér vel allan tímann. Það er eitthvað sem er ánægjulegt að sjá og finna.
Matseðillinn er fjölbreyttur og hér geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Reyndar er það svo að þetta verður næstum því að lúxusvandamáli því mig langaði að prufa allt. Ég elska nautacarpaccio, ilmandi fiskisúpu, krækling, andalæri, túnatartar, svínarif, góðan burger, þorskhnakka, safaríka nautasteik og grilluð svínarif og svona mætti lengi telja. Það var augljóst að ég var mætt í matarhimnaríki og þetta yrði tekið alla leið.
Túnfisktartar & Lárpera
Í forrétt völdum við okkur grillaðan lunda & gæsalæri og túnfisktartar & lárperu. Túnfiskrétturinn var frábær eins og við var að búast en hinn rétturinn var meira „wild card“ þegar við pöntuðum hann en hann náði okkur við fyrsta bita. Báðir réttirnir framúrskarandi en lundinn & gæsalærið tilvalinn ef fólk hefur áhuga á að prufa eitthvað alveg nýtt og rosalegt.
Grillaður lundi & gæsalæri var fullkomun ein!
Þá var komið að aðalréttunum en fyrir valinu urðu langtíma eldað andalæri og léttsaltaður þorskhnakki. Hér verður ekki gert upp á milli rétta enda báðir hreint út sagt framúrskarandi. Andalærið var stökkt að utan en um leið lungnamjúkt að innan svo það hreinlega bráðnaði í munni. Þorskhnakkinn var ólýsanlega bragðgóður, samspil fullkominnar eldunar og dásamlegs meðlætis. Í minningunni fór ég að gráta á þessum tímapunkti…þetta var bara of fallegt, gott og fullkomið.
Langtíma eldað andalæri borið fram á fallegri pönnu
Þorskhnakkinn sem náði fullkomnun
Smá tár hafa þó aldrei stöðvað mig og áfram skyldi haldið. Næst á dagskrá var að líta á eftirréttaseðilinn og um leið drukkið kaffi og maulað á dásamlegu heimagerðu súkkulaði, því ekki skyldi maður svelta.
Súkkulaði “Lion Bar” með heitri karamellusósu
Í eftirrétt urðu sítrónur & rjómaostur með grænu te og marengs og Súkkulaði „Lion bar“ fyrir valinu. Sá fyrri kom skemmtilega á óvart og var algjör dásemd. Súkkulaði Lion bar var algjör bomba. Hágæða súkkulaði með Lion bar kurli, ólýsanlega góðum hindberjaís toppað með heitri karamellusósu, svo sannarlega eftirréttur sælkerans.
Ég rúllaði út af staðnum alsæl eftir dásamlega matarupplifun. Hingað kem ég aftur og aftur og aftur….
Samantekt: Matarkjallarinn er hlýlegur og töff veitingastaður með áherslu á brasserie mat eldaðan úr íslensku hráefni. Þjónustan var góð frá upphafi til enda og matseðillinn fjölbreyttur og frumlegur. Hér ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Allir réttirnir voru framúrskarandi og ég tek ofan fyrir því færa matreiðslufólki sem þarna starfar. Matarkjallarinn fær óhikað fullt hús stiga.
Leave a Reply