Besta laufabrauðið hennar Bjarnveigar

Home / Jólin / Besta laufabrauðið hennar Bjarnveigar

Mikið sem ég hef saknað þess að fá til okkar gestabloggara – það er svo gaman að fá uppskriftir frá lesendum. Verið ófeimin að senda mér línu ef þið lumið á einhverju dásamlegu.

Ég hef svo gaman af því að skoða matarblogg, eins og gefur að skilja og dáist að því hvað margir eru duglegir og uppfinningasamir í eldhúsinu. Ein vefsíða sem hef dett oft inná er flotti matarvefurinn hennar Bjarnveigar í eldhúsinu en þar má finna margvíslegar og með eindæmum girnilegar uppskriftir. Eigandi síðunnar er Bjarnveig Ingvadóttir en hún segist nú ekki hafa haldið síðunni við undanfarið en það muni nú breytast með hækkandi sól. Bjarnveig er hjúkrunarforstjóri á Dalbæ, heimili aldraðra, sem er hjúkrunarheimili á Dalvík. Hún hefur verið að færast meira og meira í fisk- og grænmetisrétti, þar sem fósturdóttir hennar ákvað að hætta að borða kjöt. Fyrir utan áhuga á mat, hefur hún mikinn áhuga á allri handavinnu og safna fallegu garni.

Eins og sönnum Svarfdæling sæmir er hún alin upp við að gera laufabrauð fyrir jólin og er laufabrauðsgerð algjörlega ómissandi í jólaundirbúningnum. Um 10 ára aldur fór hun að aðstoða föðursystur sina við að fletja út laufabrauð þannig að hún býr yfir 40 ára reynslu á þessu sviði og geri aðrir betur. Bjarnveig og fósturdóttir hennar hafa gert 100-400 laufabrauðskökur árlega og gefa stóran hluta af því til stórfjölskyldunnar.  Hún var svo almenninleg að leyfa okkur að deila uppskriftinni að besta laufabrauðinu að hennar mati en uppskriftin kemur frá Brynju Grétarsdóttir sem er frá Skipalæk á Héraði.

 

 

 

 

Besta laufabrauðið
35-45 stk.
600 g hveiti
400 g heilhveiti
1 tsk hjartasalt
3 msk sykur
1 tsk lyftiduft
1 tsk salt
60 g smjörlíki
2 msk kúmen (mæla ómalað)
8 1/2 dl nýmjólk

Áhöld
Laufabrauðsjárn, hníf og teskeiðasköft við þetta.

  1. Setjið öll þurrefnin nema kúmenið í hrærivélarskál og blandið öllu létt saman.
  2. Malið kúmenið í mortel og setjið í pott ásamt mjólk og smjörlíki. Hitið þetta við hægan hita að suðu, en látið ekki sjóða. Ef smjörlíkið nær ekki alveg að bráðna við þetta látið það þá láta standa í pottinum þar til það er bráðið.
  3. Hellið smjör blöndunni saman við þurrefnin í skálinni og hnoðið í hrærivélinni (með krók).
  4. Hvolfið þessu á borð og hnoðið betur saman, samt eins lítið og hægt er að komast af með.
  5. Skiptið þessu í litla bita, svona 45-55 g í bita (fer eftir hvað á að verða stórar kökur). Setjið bitana í plastpoka og geymið þannig meðan laufabrauðin eru útbúin.
  6. Taka 1 bita úr pokanum. Veltið honum upp úr hveiti og fletja þunnt út, mikilvægt að fletja kökuna í allar áttir, þ.e. snúa kökunni stöðugt. Þá er kakan skorin eftir hæfilega stórum diski, best að nota kleinujárn.
  7. Þá er skorið í kökuna og flétt eftir kúnstarinnar reglum, hægt að vera mjög frjálslegur í þessu, en því meira skorið, því betra að steikja.
  8. Þá eru kökurnar steiktar upp úr vel heitri steikarfeiti, mér finnst best að nota til helminga kókosfeiti og steikarfeiti frá Kjarna eða Kristjánsbakaríi. Mikilvægt að snúa skurðinum niður þegar sett í pottinn. Mínar eru flestar frekar dökkar en það er bara vegna þess að þannig finnst okkur í minni fjölskyldu þær bestar.

Athugið að einstaka bakarí taka það að sér að baka deigið og útbúa kökurnar að uppskrift hvers og eins þannig að lítið er eftir nema að skera út og steikja. Það hentar eflaust mörgum.

 

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.