Að hafa önd í matinn á aðfangadag nýtur orðið sívaxandi vinsælda á Íslandi. Líklega má rekja þann sið til frænda okkar dana en fyllt önd er einmitt algengasti rétturinn hjá Dönum á jólunum. Ekki síst nýtur mikilla vinsælda hjá frændum okkar að fylla heila önd með sveskjum og eplum og hafa ljúffenga sósu með.
Ég var voðalega þakklát með frábærar viðtökur við þessum þáttum og hér eru loks uppskriftirnar sem ég veit að margir hafa beðið eftir að hæeldaðri önd með eplafyllingu, sósu letingjans og sætkartöflumús með pekanhnetukurli. Þetta er að mínu mati hinn fullkomni jólamatur.
Fullkomin jólamáltíð
Hægelduð önd með eplafyllingu
Fyrir 6 manns
3 kg önd
3 epli
2 rauðlaukar
1 poki sveskjur
Sósa
2 gulrætur
1 laukur
3 hvítlauksrif
3 sellerístönglar
1 tsk piparkorn
5 lárviðarlauf
innmatur frá öndinni
salt
pipar
ólífuolía
2 dl rauðvín
1 l vatn
rifsberjahlaup
smá sítrónusafi
- Snyrtið öndina og þerrið vel að innan sem og utan. Þerrið öndina og saltið og piprið hana ríflega. Pikkið göt á húðina og innúr til að fitan fari inn í fuglinn frekar en að leka niður.
- Skerið laukinn í fjórðunga og eplin í báta. Steikið lauk í nokkrar mínútur og bætið því næst eplum og sveskjum saman. Steikið í um 5 mínútur. Takið af hellunni og kælilítillega.
Setjið fyllinguna í öndina og lokið fyrir með kjötpinnum. Setjið í 130°c heitan ofn með undir og yfirhita (ekki blástur) í 5 klst. Takið úr ofni og látið standa í 15 mínútur áður en þið skerið kjötið niður. Setjið fyllinguna í skál og berið fram með öndinni. - Skerið grænmetið fyrir sósuna niður í bita. Setjið grænmetið í ofnplötu/steikarfat ásamt innmatnum. Saltið og piprið. Hellið rauðvini yfir allt og dreypið síðan ólífuolíu yfir allt.
- Setjið inn á sama tíma og þið byrjið að elda öndina. Hellið vatninu saman við eftir nokkrar klukkustundir. Þegar öndin er tilbúin hellið þá sósunni yfir í pott og sigtið í leiðinni. Látið sósuna sjóða í um 30 mínútur eða þar til hún er farin að þykkna. Fjarlægið reglulega fituna sem myndast. Smakkið að lokum til með salti, pipar og bragðbætið með smá sítrónu, rifsberjahlaupi eða sojasósu. Einnig er gott að bæta smá skvettu af rjóma saman við – en það er ekki nauðsyn.
Nokkrir punktar
- Notið kjöthitamæli. Ofnar eru mismunandi og ekki gott að ofelda öndina. Þegar kjöthitamælirinn sýnir 75°C er öndin fullelduð.
- Gott að enda eldurnartímann á smá grilli.
- Ef þið hafið ekki innmat þá er hægt að nota afgangs fitu af öndinni, kjúklingalæri eða einfaldlega bæta andakrafti saman við sósuna í lokin.
Sætkartöflumús með púðursykurs- og pekanhnetukurli
Fyrir 4-6
3-4 sætar kartöflur
100 g sykur
2 egg
1 tsk vanilludropar
70 g smjör
1 dl mjólk
Salt og pipar eftir smekk
Pekanhnetkurl
100 g pekanhnetur
200 g púðursykur
40 g hveiti
70 g smjör
- Stingið kartöflurnar með gaffli. Setjið kartöflurnar með hýðinu inn í um 180°c heitan ofn í um klukkustund eða þar til hún er orðin mjúk. Skerið í tvennt og skafið kartöfluna úr.
- Stappið því næst kartöflurnar saman við sykur, egg, vanilludropa, smjör og mjólk og saltið og piprið. Setjið í ofnfast mót.
- Saxið pekanhneturnar og setjið í pott ásamt púðusykri, hveiti og smjöri. Bræðið saman og hellið síðan yfir kartöflumúsina.
- Bakið í 170°C heitum ofni í 30 mínútur.
Leave a Reply