Fáránlega gott hátíðarlamb fyllt með döðlum, hvítlauk og fetaosti

Home / Jólin / Fáránlega gott hátíðarlamb fyllt með döðlum, hvítlauk og fetaosti

Þetta er svo mikið nýjasta uppáhalds uppskrift mín að lambalæri. Úrbeinað og fyllt með döðlum, hvítlauk og fetaosti – lamb sem sló í gegn á mínu heimili á páskadag. Ég úrbeinaði lambið sjálf (innsog) og þrátt fyrir að vita nákvæmlega ekkert hvað ég væri að gera gekk það furðuvel. Orðið úrbeina flækir þetta kannski bara fyrir okkur – skerið beinið frá hljómar bara betur og einfaldar. Ef ég gat þetta getið þið það líka. Eftirleikurinn var svo leikur einn. Döðlurnar saxaðar gróflega, hvítlaukurinn saxaður, steinselja og fetaosturinn settur saman við. Sett inn í kjötið og því rúllað upp. Veislumatur sem tekur 15 mínútur í undirbúningi.

 

Fáránlega gott lambalæri
Fyrir 4-6 manns
1 lambalæri, úrbeinað (mitt var um 2.5kg)
20 steinlausar döðlur – “ish”, saxaðar gróft
3-4 hvítlauksrif, söxuð
1/2 búnt fersk steinselja, söxuð
1/2 krukka Feti í kryddolíu frá Mjólka
smá kryddolía af fetaostinum
nýmalað salt og pipar

  1. Blandið saman döðlum, hvítlauk, steinselju og fetaosti saman í skál og hellið smá af kryddolíunni af fetaostinum saman við. Blandið vel saman og setjið í kjötið og rúllið því upp. Eldið í ofnföstu móti. Líklega lekur eitthvað af fyllingunni úr kjötinu en það er í góðu lagi.
  2. Penslið kjötið með ólífuolíu og saltið og piprið ríflega.
  3. Setjið inní 160°c heitan ofn í um 2 tíma. Þumalputta reglan er klukkutími á hvert kíló en notið endilega kjöthitamæli. Almennt má reikna með að lambakjöt sé tilbúið þegar mælirinn sýnir 55°c fyrir lítið steikt, 60-65°c fyrir meðalsteikt og 70-75°c fyrir gegnsteikt, og er þá miðað við að kjötið eigi eftir að hvíla nokkra stund eftir að það er tekið úr ofninum.

Færslan er unnin í samstarfi við Mjólku.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.