Kjúklingasalat með kasjúhnetum, beikoni og geggjaðri balsamikdressingu

Home / Fljótlegt / Kjúklingasalat með kasjúhnetum, beikoni og geggjaðri balsamikdressingu

Á mínum yngri árum var hægt að ganga að því sem vísu að ef kjúklingasalat var á matseðli á veitingarstað þá var ég búin að ákveða hvað yrði pantað í það skipti. Flóknara var lífið ekki – ahhh sælla minninga. Í seinni tíð hefur úrvalið aðeins aukist en þó er ávallt jafn ánægjulegt að gæða sér á litríku og stökku kjúklingasalati á veitingastað með mögulega eins og einu hvítvínsglasi.

Það er mjög einfalt að útbúa gott kjúklingasalat og í raun bara spurning um góð hráefni og örlitla natni. Því furða ég mig oft á því þegar veitingastaðir ná að klúðra þessum einfalda rétti með að því er virðist miklu metnaðarleysi og ákveðin vonbrigði þegar kál, tómatar í bátum og nokkrar gúrkusneiðar koma ásamt 3 fetaostabitum og leitin að kjúklinginum er eins og leitin að nálinni í heystakknum (þó ég hafi nú reyndar aldrei leitað að henni þar). Segið mér að þið séuð að tengja!

Þetta kjúklingasalat er ofarlega á lista yfir það allra besta og líklega er það með aðstoð balsamikdressingunnar sem slær allar aðrar dressingar út af borðinu. Í salatið getið þið látið það grænmeti sem  ykkur hugnast og eigið til í ísskápnum hverju sinni og því frábær réttur til að sporna gegn matarsóun. Þetta salat er algjör B.O.B.A.

Maturinn skreytir sig sjálfur með þessum fallegu litum

Dressingin setur punktinn yfir i-ið

 

 

Kjúklingasalat með geggjaðri balsamikdressingu
Styrkt færsla
fyrir 4
4 kjúklingabringur, t.d. frá Rouse Poultry
8 sneiðar beikon
1 rauðlaukur, smátt saxaður
1 krukka fetaostur
1 1/2 dl kasjúhnetur
1 poki klettasalat
Dressing
1 dl sykur
1 dl balsamik edik, t.d. frá Filippo Berio
3 msk majones
1 dós sýrður rjómi
salt og pipar

  1. Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Undir lok eldunartímans skerið beikon í bita og steikið með bringum. Þegar bringurnar eru fulleldaðar og beikonið stökkt, takið pönnuna af hellunni og kælið.
  2. Blandið rauðlauk, fetaosti, kjúklingi, beikoni, kasjúhnetum og klettasalati saman í skál.
  3. Gerið dressinguna. Sjóðið sykur og balsamikedik í potti þar til sykurinn bráðnar og kælið. Hrærið majones og sýrðan rjóma saman í skál og bætið balsamikblöndunni saman við.  Saltið og piprið.
  4. Hellið dressingunni saman við salatið. Mér þykir gott að láta lítið magn af dressingunni í byrjun og kýs að bera hana frekar fram með salatinu. Þá getur hver og einn bætt dressingu út á salatið að eigin smekk.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.