Veitingahúsagagnrýni Matur og drykkur

Home / Veitingahús / Veitingahúsagagnrýni Matur og drykkur

matur-drykkur
Matur og drykkur, Grandagarði 2

Nýlega lá leið mín á veitingastaðinn Matur og drykkur sem er staðsettur á Grandasvæðinu. Eigendur staðarins eru Gísli Matthías Auðunsson, Elma Backman, Ágústa Backman, Inga María Backman og Albert Munoz, en það er gaman að segja frá því að Gísli  sem á og rekur einnig veitingastaðinn Slippinn í Vestmannaeyjum var á dögunum valinn á lista JCI yfir 10 framúrskarandi unga Íslendinga.

IMG_2204Kryddjurtakokteill sem þið verðið að prufa            Ljósmynd / Silvio Palladino

IMG_2197Nýbakað súrdeigsbrauð                          Ljósmynd / Silvio Palladino

Gísli er þekktur fyrir að fara ótroðnar slóðir í matargerð og hugmyndin með Mat og drykk var einmitt að matreiða skemmtilegan og bragðgóðan mat úr gömlum góðum íslenskum uppskriftum og besta mögulega hráefni. Staðurinn hefur það háleita markmið að gera íslendinga stolta af íslenskum mat!

IMG_2242Fagmennska í eldhúsinu                      Ljósmynd / Silvio Palladino

Hönnun staðarins er skemmtileg en umhverfi hans er hrátt en hlýlegt, með fallegum og látlausum innréttingum. Starfsfólkið veitti okkur afburðarþjónustu á vinalegan og afslappaðan hátt og var með góða þekkingu á því sem staðurinn hafði upp á að bjóða. Nálægðin við kokkana er skemmtileg og gaman að fylgjast með þeim setja saman réttina. Það er augljóst að þarna er fagmennskan í fyrirrúmi.

flöllurGrafin bleikja með piparrótasósu á stökkri flatböku       Ljósmynd / Silvio Palladino

IMG_2202Harðfiskflögur með mysusmjöri og söl – dásemdin ein!         Ljósmynd / Silvio Palladino

Af matseðilinum er hægt er að velja um fingramat, aðal- og eftirrétti annars vegar, en ef maður er óviss og langar að bragða það besta sem staðurinn hefur upp á að bjóða er hægt að velja á milli Sjávarrétta matseðilsins eða Íslenska matseðilsins og fá gæðadrykki sérvalda með hvorum matseðlinum fyrir sig. Ég mæli sterklega með því að þið farið í annan hvorn matseðilinn með drykkjum. Þá getur maður einfaldlega hallað sér aftur og notið allls þess besta sem staðurinn hefur upp á að bjóða.

IMG_2217Salat með tómötum og gúrkum með mysuvinagrette     Ljósmynd / Silvio Palladino

Framhaldið var áreynslulaust og yndislegt. Starfsfólkið var vel með á nótunum og færði okkur hverja stjörnuna á fætur annarri og útskýrði réttina vandlega fyrir okkur. Kosturinn við að fara í matseðlana er sá að maður fær að prufa rétti sem maður hefði annars sjálfur ekki valið. Hér kom allt á óvart, líka réttirnir sem ég bjóst við að væru góðir, þeir voru einfaldlega betri.

lúðusúpaYndislega lúðusúpan                    Ljósmynd / Silvio Palladino

Lúðusúpan er með ferskum eplum, rjóma, rúsínum, dilli, mysu og kræklingi en þar er nú skondið að segja frá því að þar sem lúðuveiðar eru bannaðar á Íslandi var flatfiskur notaður í staðinn. Nafnið fær samt að standa og súpan er frábær.

Það er svo ekki hægt að fjalla um Mat og drykk án þess að minnast á þorskhausinn en hann er einn af vinsælustu réttum staðarins. Ég mæli eindregið með því að þið prufið hann en hér er ekki bara fullkomið tækifæri til skemmtilegrar upplifunar heldur er rétturinn virkilega góður. Einn af þessum réttum sem ég er ekki viss um að ég hefði pantað mér hefði ég fengið að ráða en mun svo sannarlega panta mér hann aftur með góðu hvítvíni. Þennan verðið þið hreinlega að prufa.

IMG_2226Réttur sem kom virkilega á óvart – fagri þorskhausinn         Ljósmynd / Silvio Palladino

Eftirréttirnir settu svo punktinn yfir i-ið á dásamlegri matarupplifun. Klassísku íslensku kleinurnar voru á sínum stað með mysingskremi sem bragðaðist líkt og karmella, algjör unaður. En kvöldið náði svo hámarki þegar ég bragðaði á rjómablönduðu skyrinu með höfrum, mysukrapi og þurrkuðum bláberjum…. hér skortir mig einfaldlega lýsingarorð!

Það er auðvelt að fara út í smáatriði á hverjum rétti en ég læt það vera. Allur matur og drykkur sem ég bragðaði þetta kvöld var framúrskarandi og það er því ekki skrítið þótt fólk sem hingað kemur sé farið að velta fyrir sér Michelin stjörnu.

IMG_2278
K
leinur og mysingskrem…algjört- jummí!            Ljósmynd / Silvio Palladino


IMG_2273Rjómablandað skyr – besti eftirréttur fyrr og síðar!       Ljósmynd / Silvio Palladino

Veitingastaðurinn Matur og drykkur fer klárlega ótroðnar slóðir í matargerð. Öll umgjörðin er frumleg og einstök án þess að verða nokkurn tímann of stíf eða ýkt. Þarna er afslappað andrúmsloft, eintakur matur og góð þjónusta, allt eiginleikar sem veitingahús þarf að hafa til að vera framúrskarandi.

Ég er strax farin að leyfa mér að hlakka til að koma aftur og bragða enn eina stjörnu staðarins. Að mínu mati nær Matur og drykkur auðveldlega því háleita markmiði sínu að gera Íslendinga stolta af íslenskum mat og fær því hér með fullt hús stiga.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.