Þessa köku bar ég fram í veislu fyrir nokkur og hún kláraðist á mettíma og margir sleiktu diskana sína i von um að sælan myndi vara örlítið lengur. Veislubomban er fögur og hentar vel á veisluborðið en að auki er hún syndsamlega góð og örlítið jólaleg. Njótið vel kæru vinir.
Kveðja
Anna Rut!
Veislubomba Önnu Rutar
1 ¾ bolli hveiti
2 bollar sykur
¾ bolli kakó
2 tsk matarsódi
1 tsk salt
1 bolli súrmjólk/ab mjólk
½ bolli matarolía
3 egg
1 tsk vanilludropar
1 bolli heitt kaffi
Ofan á
11 -12 dl rjómi
2 pokar af kúlum
1 pakki af kókosbollum
1 poki frosin hindber, afþýdd
16 stk Oreo kex, grófsaxað
Ber til að skreyta (má sleppa)
- Hitið ofninn í 180°C
- Sigtið öll þurrefnin (hveiti, sykur, kakó, matarsóda og salt) í skál og hrærið þeim saman.
- Setjið eggin, súrmjólkina, matarolíuna og vanilludropana í aðra skál og hrærið vel.
- Hellið síðan blöndunni saman við þurrefnin smátt og smátt og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman.
- Hrærið að lokum heitu kaffinu saman við.
- Hellið deiginu í tvö vel smurð hringform (gott að klippa til smjörpappír og setja í botninn til að kakan festist örugglega ekki við).
- Bakið í 35 – 40 mínútur.
- Takið botnana úr ofninum og kælið vel.
Kakan sett
- Kljúfið hvorn botn fyrir sig í tvennt.
- Búið til karamellukremið með því að setja 2 dl af rjómanum í pott ásamt kúlunum og sjóðið saman á vægum hita þar til allar kúlurnar eru bráðnaðar.
- Þeytið rjómann og skiptið honum í þrennt.
- Setjið fyrsta botninn á kökudisk og smyrjið hann með smá karamellukremi. Raðið kókosbollunum ofan á kremið og 1/3 af þeytta rjómanum .
- Setjið næta botn ofan á, smyrjið hann með smá karamellukremi Saxið Oreokexið, hrærið því saman við 1/3 af rjómanum og setjið ofan á botninn.
- Því næst setjið þið þriðja botninn ofan á, raðið á hann hindberjunum og smyrjið restinni af rjómanum yfir.
- Að lokum setjið þið seinasta botninn á, hellið karamellusósunni yfir og skreytið að vild.
Leave a Reply