Ostafyllt ravioli með rjómalagaðri graskerssósu

Home / Ostafyllt ravioli með rjómalagaðri graskerssósu


Rrrravioli! Gæti verið nafn á fiðlusnillingi eða hjartaknúsara en er þó miklu bitastæðara í raun. Rekja má sögu þess aftur til einkabréfa auðugs vopnasala og listaverkakaupmanns í Toskana á 14 öld og við páfakjörið 1549 (Júlíus III páfi, einhver?) var það á borðum með soðnum kjúklingi. Eintalan er „raviolo“ – en hver borðar svo sem bara eitt „raviolo“? Og alveg áreiðanlega ekki af þessum rétti þar sem grasker, spínat og rjómi umvefja hvert einasta „raviolo“ og sjá um að koma þeim öllum örugglega upp í næsta munn.

Þessi himneski helgarréttur kemur úr bók GulurRauðurGrænn&salt með Fljótlegum réttum fyrir sælkera og með honum smellpassar að bera fram hvítvínið Mezzacorona Chardonnay frá Ítalíu.

ravioli


Ostafyllt ravioli með rjómalagaðri graskerssósu
Fyrir 4
Eldunartími 30 mínútur

500 g ravioli með ostafyllingu
350 g ílangt grasker, afhýtt, fræhreinsað og skorið í teninga
3 hvítlauksrif, pressuð
2 msk smjör
200 g spínat
240 ml rjómi
70 ml grænmetiskraftur
100 g valhnetur, ristaðar og saxaðar

  1. Látið niðurskorið graskerið í ofnfast mót í 200° heitan ofn í um 20 mínútur eða þar til það er orðið mjúkt. Maukið í matvinnsluvél eða með töfrasprota.
  2. Sjóðið pastað skv. leiðbeiningum.
  3. Steikið laukinn í smjörinu við lágan hita í um 1 mínútu. Bætið graskersmaukinu og spínati saman við og hitið í um 3 mínútur og hrærið reglulega. Bætið síðan rjómanum saman við ásamt grænmetiskrafti. Hitið að suðu. Látið malla í um 8 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað lítillega. Saltið og piprið að eigin smekk.
  4. Hellið sósunni yfir heitt pastað og stráið að lokum söxuðum valhnetum yfir.

 Með þessum rétti mælum við með hvítvíninu Mezzacorona Chardonnay.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.