Shakshuka

Home / Shakshuka

Hún Ásta Guðrún Jóhannsdóttir er næsti gestabloggari hjá okkur. Ásta er viðskiptafræðingur að mennt og með brennandi áhuga á handavinnu og mikil áhugamanneskja í eldhúsinu. Hér er hún með uppskrift af girnilegu Shakshuka sem hentar öllum fjölskyldumeðlimum.

matur1-2

 

Shakshuka
Ég hef sérstakt fetish fyrir því að finna uppskriftir sem eru í senn – fljótlega, hollar, bragðgóðar og innihalda hráefni sem auðvelt er að nálgast. Svo er líka alltaf bónus ef uppvaskinu er haldið í lágmarki, ég á mjög erfitt með uppskriftir þar sem 4 skálar, pottur eldfast mót og pastasigti kemur allt við sögu ;) Þegar það þarf að metta 5 manna fjölskyldu þá eru það svona atriði sem eru manni ofarlega í huga.

En um helgar þá er slow cooking matur í miklu uppáhaldi, allt sem fær að malla í ofni tímunum saman fær plús í kladdann hjá mér því þá er hægt að nota tímann í að prjóna og leika sér með fjölskyldunni !

Þessi réttur er upprunalega frá Túnis og er víst vinsæll í miðausturlöndum. Það er svo hægt að gera hann bragðmeiri með chili og slíku fyrir fullorðna en ég hef hann í mildari kantinum svo krakkarnir geti notið hans. Stundum er líka notast við tómat paste/pure til að fá meiri dýpt í hann svo þetta er þægilegur réttur til að leika sér með og hráefnin yfirleitt til í eldhúsum okkar flestra.  Hér er á ferðinni frábær réttur sem auðvelt er að leika sér með og bjóða uppá sem léttan kvöldverð eða brunch.

matur2-3

matur3

matur1

 

Hráefni
1 Laukur, skorinn niður
1 hvítlaukur, skorinn niður
1-2 paprikur, skornar í bita
1 msk cummin
1 msk paprikukrydd
1/2-1 msk chiliblanda, t.d. Hot mexican style chili powder frá McCormick
2 dósir hakkaðir tómatar (ég notaði bragðbætta því annað var ekki til í búðinni en best er ef þeir eru ókryddaðir)
egg – eins mörg og matargestirnir eru
smávegis af hreinum feta (má sleppa)
salt og pipar
ólífuolía

  1. Hitið ólífu olíu á pönnu og steikið laukinn í 3-4 mínútur eða þar til hann er orðinn glær
  2. Bætið á hvítlauknum við og leyfið honum að míkjast 1-2 mínútur.
  3. Bætið þá paprikubitunum út í ásamt kryddinu og leyfið þessu að blandast vel saman, saltið og piprið.
  4. Hellið báðum tómatdósunum út á pönnuna og hrærið í, þetta á svo að malla í 15-20 mín og þykkna. Ef ykkur finnst þetta vera orðið mjög þykkt snemma þá má bæta smá vatni út í til þetta fái að malla góðan tíma (ef ég þarf að bæta vatni við finnst mér líka gott að setja eins og 1/2 grænmetistening út í á móti en það er smekksatriði)
  5. Þegar þetta hefur mallað og búið að þykkna þá eru gerðar smá dældir í sósuna með skeið og egg brotið þar ofan í. Mér finnst betra að brjóta eggið fyrst í glas og hella því svo út í (bæði til að vera viss um að eggið sé í lagi og líka til að geta betur stýrt þegar ég helli)
  6. Saltið og piprið eggin og látið þetta malla með loki á (eða setjið pönnuna inn í ofn) þar til eggin eru tilbúin (ef þið eruð með feta ostinn skuluð þið strá honum yfir hér).

Athugið að það þarf að fylgjast með eggjunum og taka þau af hitanum örlítið áður en þau eru í raun tilbúin því þau halda áfram að eldast í heitri sósunni á meðan pannan er á borðinu og allir eru að koma sér fyrir. Það er mikilvægt að þau verði ekki harðsoðin.

Mjög gott er að hella svolítið af góðri ólífuolíu og strá annaðhvort kóríander eða graslauk yfir áður en þetta er borið fram. Berið þetta svo fram með góðu snittubrauði eða nanbrauði því það er nauðsynlegt til að ná upp öllu eggjagumsinu!

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.