Um daginn fór ég í dásamlegum félagsskap með Icelandair til Edmonton. Þó stoppið hafið verið stutt var ferðin yndisleg og einkenndist af gleði, verslunarferð, sól, hvítvíni og góðum mat. Yndislegt alveg hreint. Ég steingleymdi að taka mynd af veitingastöðunum og matnum, sem þýðir að ég var líklega bara í fríi að njóta, en verð samt að segja að þarna fékk ég eitt besta kjúklingasalat sem ég hef bragðað erlendis. Jummí.
Það er langt síðan ég hef komið inn með góðan forrétt og því aldeilis kominn tími á það. Þessi dásamlegi réttur er með grilluðum risarækjum og avacadósalsa. Uppskriftina rakst ég á í þessu girnilega tímariti Clean Green Salads sem ég fékk í Edmonton. Allar uppskriftirnar eru að mínu skapi enda ferskleiki, litargleði og hollusta hér við völd.
Þessi uppskrift er yndisleg, smá spicy en auðvitað hægt að minnka það örlítið með minna chilímauki eða þerra marineringuna lítillega af risarækjunum áður en þær eru grillaðar. Sumarið er núna og því ekki að fá sér hvítvín með?
Njótið vel!
Yndislegur ferskur og fallegur forréttur
Verð að mæla með OYOY diskamottunum frá Snúrunni – elska þær!
Chilí risarækjur með avacadósalsa
Forréttur fyrir ca. 6 manns
24 tígrisrækjur frá Sælkerafisk
3 msk límónusafi
2-3 msk chilímauk, t.d. Blue dragon chilí paste
1 hvítlauksrif, pressað
½ tsk sjávarsalt
¼ tsk pipar
límónusneiðar
Avacadósalsa
4 avacado, skorin í teninga
1 dós tómatar, saxaðir
3 msk ferskt kóríander
2 msk límónusai
1 msk worcestershire sósa
salt
pipar
- Gerið avakadósósuna með því að blanda öllum hráefnunum saman og kælið í um klukkutíma.
- Leggið grillprjónana í bleyti ef þeir eru úr við. Afþýðið rækjurnar og setjið í skál eða plastpoka með rennilás.
- Gerið marineringuna með því að setja límónusafa, chilímaukið og hvítlaukinn saman í skál. Hellið yfir risarækjurnar og marinerið í amk. 15 mínútur til klukkutíma. Takið risarækjurnar úr marineringunni og þræðið upp á 4 til 5 grillteina. Saltið og piprið. Grillið í 7-10 mínútur og snúið einu sinni.
- Berið risarækjurnar fram með avacadósalsa, límónubátum og og fersku kóríander.
Leave a Reply