Tostadas er mexikóskur réttur með djúpsteiktri tortillu, kjúklingi, baunum og grænmeti. Þetta er fallegur réttur sem skemmtilegt er að borða sem forrétt (þá með minni tortillu)eða aðalrétt. Að mínu mati er hann enn betri þegar tortillan er einfaldlega pensluð með olíu og ristuð í ofni í stað þess að vera djúpsteikt. Þegar tostadas er borðað er fínt að láta hnífapörin lönd og leið.
Kjúklingur
1 kjúklingur, eldaður og rifinn niður
1/3 bolli safi úr lime
1/4 bolli ólífuolía
1/4 bolli kóríander, saxað
salt og pipar
Aðferð: Rífið kjúklinginn niður. Hellið yfir hann limesafa, olíu, kóríander, salti og pipar, blandið vel saman og geymið í amk. 30 mínútur.
Tortillur hráefni
1 pakki tortillur
olía til penslunar
rifinn ostur
1/2 iceberg
1-2 avacado
sýrður rjómi
kóríander
pinto baunamauk og salsa cruda (sjá uppskrift að neðan)
Pinto baunamauk
2 msk olífuolía
1/4 laukur
1 tsk koríander
1 tsk cumin (ekki kúmen)
4 hvítlauksrif
1 dós maukaðar pinto baunir (með vökvanum)
1/4 tsk salt
Pipar
Aðferð: Hitið olíu á pönnu við meðalhita. Bætið lauk, kóríander og cumin útí og steikið í um 2 mínútur. Bætið hvítlauk út í og steikið í 1 mínútu í viðbót. Bætið baununum útí. Hrærið stöðugt þar til maukið hefur þykknað eða í um 4 mínútur. Saltið og piprið.
Salsa cruda
4 plómutómatar, saxaðir gróft
1/4 laukur, saxaður
1/4 jalapeno, smátt skorið
2 msk ferskt kóríander
Salt og pipar
Aðferð: Blandið öllu hráefninu í skál. Saltið og piprið eftir smekk. Setjið plastfilmu yfir og geymið.
Tostadas samsetning
Penslið tortillurnar með olíu. Setið þær í 200°c heitan ofn í um 8 mínútur (eða þar til þær eru vel stökkar), snúið einu sinni. Takið tortillurnar úr ofni, setjið baunamaukið á þær, síðan rifinn ost. Setjið inní ofn þar til osturinn hefur bráðnað.
Dreifið kjúklingi yfir baunamauki og ostinn. Látið því næst iceberg, avacado, salsa cruda, sýrðan rjóma, jalapeno. Skreytið með kóríander og njótið!
Það er einfalt að gera tostadas með því að pensla tortillur með olíu og rista þær í ofni. Ég keypti þessar venjubundnu tortillur og gerði þær aðeins minni með því að klippa þær til þannig að auðveldara væri að halda á þeim. Passið ykkur að hlaða ekki of miklu á þær þannig að þær brotni ekki.
Ég átti bara sýrðan rjóma í dós og blandaði hann saman við um 1-2 msk. af hreinni jógúrt til hann yrði mýkri. Setti það svo í sprautukönnu sprautaði yfir allt. Mæli annars með því að kaupa sýrðan rjóma í plastflöskum. Grænmetisætur get sleppt kjúklingnum, látið tofu í staðinn eða látið einfaldlega grænmetið nægja.
Leave a Reply