Grískur, fallegur, litríkur og ljúffengur er óhætt að nota sem lýsingu á þessum rétti sem tilvalið er að elda um helgina. Kjúklingabringur fylltar á grískan máta er ofureinfalt að gera og lætur viðstadda stynja af ánægju. Ekki skemmir svo fyrir að þessi skemmtilegi kjúklingaréttur er einnig meinhollur. Njótið vel!
Kjúklingabringur með grískri fetaostafyllingu
1 krukka fetaostur, mulinn
25 g fersk basilíka, söxuð
150 g sólþurrkaðir tómatar, skornir smátt
1 msk olía, t.d. af sólþurrkuðu tómötunum
50 – 100 g ólífur, skornar í sneiðar
1 tsk oreganó, þurrkað
120 ml kjúklingakraftur
4 kjúklingabringur
4 tsk smjör
salt
pipar
- Blandið saman muldum fetaosti, basilíku, sólþurrkuðum tómötum, olíu, ólífum og oreganó í skál. Hellið kjúklingakraftinum saman við en haldið eftir um 4 msk til að nota síðar.
- Lemjið kjúklingabringurnar aðeins niður, en varist að hafa þær of þunnar. Skerið vasa í þær og deilið fyllingunni á hverja bringu. Saltið og piprið
- Takið álpappír og látið á hann 1 tsk af smjöri og kjúklingabringurnar síðan yfir það. Hellið 1 matskeið af kjúklingakrafti yfir bringuna og lokið henni síðan í álpappír. Gerið eins með hinar bringurnar.
- Látið í 210°c heitan ofn í um 25 mínútur. Ef þið viljið brúna þær örlítið er gott að taka álpappírinn af síðustu mínúturnar og hafa þá ofninn stilltan á grill.
Leave a Reply