Hvað get ég sagt annað en að ég elska góðar súpur. Það er eitthvað svo ótrúlega notalegt við það að borða súpur hvort sem það er hversdags eða um helgar. Eins og hefur mögulega komið fram hér einhverntímann áður að þá er ég algjör líka algjör kókoslover. Allar uppskriftir sem innihalda kókos eru bara fyrir mér “signed, sealed and delivered”. Þessa kókos & kjúklingasúpu gerði ég þegar ég var í baráttunni við flensupúka og ekki í stuði fyrir eldamennsku. Ég beit á jaxlinn, skellti í þessa sem var mun fljótlegri en ég hafði haldið og varð yfir mig hrifin. Það kom mér hinsvegar ekki á óvart hversu frábær hún var enda spyr ég, getur eitthvað sem inniheldur kókos klikkað?
Súpan er matarmikil og inniheldur kjúkling sem verður til þess að maður
þarf ekki að borða aftur stuttu eftir matartímann.
Kókos & kjúklingasúpa
fyrir 3-4 manns
ólífuolía
3 kjúklingabringur, skornar í munnbita
1 laukur, saxaður smátt
1 msk ferskt engifer, rifið
1 1/2 bolli kjúklingakraftur (eða 1 1/2 bolli vatn og 1 kjúklingateningur)
1 dós kókosmjólk
2 tsk karrý
1 jalapeno, fræhreinsaður og hakkaður
2 msk límónusafi
1 lítil paprika, skorin þunnt
1/2 bolli ferskt kóríander
1/2 bolli kókosflögur
2 bollar hrísgrjón (má sleppa)
Aðferð
- Hitið olíuna í meðalstórum súpupotti. Bætið kjúklinginum í pottinn, kryddið með salti og pipar. Steikið kjúklinginn þar til hann er alveg að verða tilbúinn, bætið þá lauknum út í og steikið þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið engifer út í og steikið í 1 mínútu í viðbót.
- Látið í pottinn kjúklingakraftinn, kókosmjólkina, karrýið og jalapenio. Hitið að suðu við meðalhita. Bætið því næst papriku og kóríander út í og hitið í um 3 mínútur og bætið þá límónusafanum út í. Smakkið til og saltið og piprið að eigin smekk.
- Hellið súpunni í skálar og látið hrísgrjón ofaní súpuna. Skreytið með kóríander og kókosflögum
Leave a Reply