Sara Bernhardt hinnar uppteknu húsmóður

Home / Sara Bernhardt hinnar uppteknu húsmóður

Nú er loksins komið að því að fá til okkar góðan Gestabloggara sem að þessu sinni er hún Lára Betty Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur en hún býr ásamt fjölskyldu sinni í Noregi. Lára gerði á dögunum óvenjulegar Sörur sem hafa heldur betur slegið í gegn og þá sérstaklega hjá þeim sem elska að borða Sörur en vilja gjarnan vera laus við alla vinnuna sem felst í gerð þeirra. Ég er svo spennt að deila þessu með ykkur – gef því Láru orðið og hvet ykkur til að prufa þessar snilldar Sörur sem allra fyrst!

 

Sörur Bernhardth hinnar uppteknu húsmóður

Að vera eiginkona, mamma tveggja smábarna, nemi, vinna fulla vinnu og búandi í Noregi, fjarri fjölskyldu og vinum, getur krafist þess að maður forgangsraði tímanum sínum vel og þá er bakstur kannski ekki alveg efst á blaði.

Ég hef vanalega gert Söru Bernhard fyrir jólin, og stundum Siggu Beinteins, en alltaf fundist þetta taka voðalegan tíma og vera óttarlegt moj. Ekki minnst eftir að ég eignaðist krakkana, þá er rómantíkin við að dunda sér í eldhúsinu lítil. En norðmenn meiga eiga það, að þeir eru oft mjög praktískir og ég hoppaði nánast hæð mína af gleði þegar ég rakst á þessa dásamlegu hugmynd á heimasíðunni http://www.detsoteliv.no.

Það var því einn dásamlegan vetrardag, þegar snjórinn kom loksins hér í Þrándheimi, að ég skellti í þessa dásemd (og efast stórlega um að ég geri þetta með gömlu aðferðinni aftur).

Byrjun des 2013 006

Það er fallegt um að litast í Noregi þessa dagana

Byrjun des 2013 009

Flotta fjölskyldan að leika sér í snjónum

 Byrjun des 2013 015

Sörubotninn bakaður í ofnskúffu

Byrjun des 2013 017

Súkkulaðikremi smurt á botninn

Byrjun des 2013 018

Súkkulaðiglassúr látið yfir allt

Byrjun des 2013 019

Sörurnar eru skornar í hæfilega bita

Byrjun des 2013 020

..og að lokum geymdar í lokuðu íláti

Sara Bernhardt í ofnskúffu

Hráefni

Möndlubotn
400 g möndlur
400 g sykur
4 tsk lyftiduft
6 eggjahvítur

Súkkulaðikrem
250g smjör
200g flórsykur
6 eggjarauður
4 tsk kakó
2 tsk vanillusykur/dropar

Súkkulaðiglassúr 
200g suðusúkkulaði
2msk smjör 

Aðferð

Möndlubotn

  1. Malið möndlurnar (ég kaupi möndlur með hýði og mala þær svo bara í blandaranum). Blandið svo lyftidufti saman við möndlurnar.
  2. Stífþeytið eggjahvítur og blandið sykrinum við í smáum skömmtum.
  3. Þekjið ofnskúffu (ca 30x40cm) með bökunarpappír og dreifið deginu jafn í ofnskúffuna.
  4. Bakið í miðjum ofni á 175°C í 20 mínútur
  5. Kælið botnin vel, ca ½ til 1 klst ætti að duga.

Súkkulaðikrem

  1. Þeytið smjör og flórsykur saman. Þeytið svo eggjarauður saman við þar til verður úr mjúkt smjörkrem. Þeytið að lokum samanvið kakó og vanillusykur/dropa.
  2. Smyrjið svo kreminu jafn yfir botnin.
  3. Athugið að mikilvægt er að botnin sé allveg orðinn kaldur þegar súkkulaðikreminu er dreift yfir.
  4. Svo skal kæla aftur vel. Annað hvort í frysti, ísskáp, eða bara á köldum stað í húsinu. Ca 1 klst er líklega nóg


Súkkulaðiglassúr

  1. Bræðið smjörið og súkkulaðið saman. Dreifið blöndunni svo yfir kalda kökuna í þunnu lagi.
  2. Svo skal kæla í síðasta sinn.
  3. Að lokum er dýrðin svo skorin í hæfilega stóra bita eftir smekk.
    Geymist vel í frysti.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.