Frábær uppskrift af stökku Thai nautakjöti í mildri chilísósu með grænmeti. Svona uppskrift sem fær mann til að fá sér meira og meira og meira og ætti að vekja lukku hjá öllum aldurshópum. Þessi uppskrift er ekki sterk, en sumir eru mjög viðkvæmir fyrir chilí og þá má að sjálfsögðu sleppa því. Hér er á ferðinni Tælensk uppskrift eins og hún gerist best njótið vel og leyfið okkur að fylgjast með hvernig ykkur líkaði. Fyrir ykkur sem eruð að fylgja okkur á instagram, munið að tagga okkur þegar þið eldið uppskriftir af GulurRauðurGrænn&salt #grgs.
Stökkt nautakjöt í chilísósu
350 g nautakjöt að eigin vali, t.d. mínútusteik eða nautagúllas skorið smátt
1-2 eggjahvítur (má sleppa en gerir nautakjötið enn meira stökkt)
hveiti
1 dl grænmetisolía til steikingar
1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
1 rautt chilí, skorið í þunnar sneiðar
4 vorlaukar, skorið niður og hvíti og græni hlutinn aðskilinn
2 hvítlauksrif, pressuð
Chilísósa
2 msk hrísgrjónaedik, t.d. rice vinegar frá Blue dragon
2 msk soyasósa, t.d. frá DeSiam
4 msk sweet chilí sósa, t.d. frá DeSiam
4 msk tómatsósa
- Setjið eggjahvítur í skál og léttþeytið með gaffli. Dýfið kjötinu í eggjahvíturnar og veltið þeim því næst upp úr hveitinu. Hellið olíu á pönnu og leyfið henni að hitna mjög vel, setjið þá kjötið út á pönnuna og steikið þar til kjötið er orðið gyllt og stökkt. Takið kjötið úr olíunni og þerrið á eldhúsrúllu. Hellið olíunni af pönnunni, að undanskilið 1 msk.
- Setjið paprikuna, helminginn af chillí, hvíta endann af vorlauknum og hvítlauk á pönnuna. Steikið í 3 mínútur þar til grænmetið er farið að mýkjast en passið að hvítlaukurinn brenni ekki.
- Gerið sósuna með því að blanda öllum hráefnunum saman ásamt 2 msk af vatni og hellið yfir grænmetið. Leyfið að malla í 1-2 mínútur, bætið þá kjötbitunum út í og blandið vel saman.
- Berið fram með núðlum og stráið vorlauk og chilí yfir (má sleppa þessu skrefi ef þið viljið ekki hafa réttinn of sterkan).
Leave a Reply