Síðastliðinn þriðjudag var frumraun mín í sjónvarpi þegar Sjónvarp Símans sýndi þáttinn Ilmurinn í eldhúsinu sem unnin var af SKOT production. Það verður nú að viðurkennast að það var skrítið að horfa á sjálfan sig í svona löngum þætti, en ég er sátt við útkomuna og þakka ég því fagmönnum sem að þessum þáttum stóð.

Mig langar að deila með ykkur forréttinum sem ég gerði í þættinum en hann er ein mesta snilld sem ég þekki og allir elska sem hann bragða. Hér erum við að tala um humarvefjur með heimagerðri hvítlauks aioli. Rétturinn er einfaldur í gerð og tilvalinn á jólunum þegar við viljum halda stressinu í lágmarki.

Ef þið notið meðalstórann humar ætti að vera nóg að setja einn í hverja brauðsneið, en ef þið eruð með lítinn humar þá nota ég 2 stk í eina brauðsneið. Gott er að áætla humarmagnið út frá því og miða við 2 brauðsneiðar á mann. Út í smjörið látum við svo ríflegt magn af hvítlauk – er einhverntímann of mikið af honum spyr ég nú bara? Með þessu ber ég veislusalat og heimagert hvítlauks aioli sem er dásamlegt, en að sjálfsögðu má flýta fyrir sér með því að kaupa tilbúna hvítlaukssósu. Njótið vel!

 

 

Humarvefjur með hvítlauks aioli

 

Humarvefjur með hvítlauks aioli
Styrkt færsla
Franskbrauð
Humar, skelflettur, t.d. frá Sælkerafiski
Smjör
Hvítlaukur
Steinselja, fersk
Sítrónupipar

Hvítlauks Aioli
1 tsk sítrónusafi
1/2 tsk Dijon sinnep
2 stk eggjarauður
180 ml ólífuolía, t.d. frá Filippo Berio
1/4 tsk salt
1/8 tsk pipar
1 stk hvítlauksgeiri, fínt saxaður

  1. Gerið hvítlaukssósuna og setjið hvítlaukinn, sinnepið, eggjarauðuna og sítrónusafann í skál og hrærið vel saman.
  2. Hellið ólífuolíunni rólega út í og hrærið stöðugt í. Gott er að setja smá parmesanost út í.
  3. Kryddið með salt og pipar. Geymið í kæli.
  4. Gerið þá humarvefjurnar. Bræðið smjörið, pressið hvítlaukinn og blandið saman ásamt steinseljunni. Skerið skorpuna af brauðinu og fletjið það út með kökukefli báðu megin svo loftið fari úr því og það sé einfaldara að vefja brauðinu utanum humarinn.
  5. Hreinsið humarinn og leggið hann á brauðið.
  6. Kryddið með sítrónupiparnum.
  7. Vefjið brauðinu utan um humarinn og veltið rúllunum upp úr hvítlauskssmjörinu.
  8. Bakið í ofni við 200°C í 10-15 mín.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.