Snúðar betri en úr bakaríi

Home / Brauð & samlokur / Snúðar betri en úr bakaríi

Fyrir alla þá sem elska stóra og mjúka snúða með súkkulaðiglassúr að þá getið þið glaðst sérstaklega því næsti gestabloggari er hún Valgerður Gréta Guðmundsdóttir sem heldur úti girnilega blogginu  Eldhúsið hennar Völlu. Á blogginu birtir hún uppskriftir sem eru fjölbreyttar, stundum hollar, bragðgóðar og umfram allt rétti úr aðgengilegu hráefni sem flestir ættu að geta reitt fram í sínu eldhúsi. Það er gaman að segja frá því að Valla vann uppskriftarsamkeppni sem við héldum með glæsibrag með uppskrift af gratíneruðum kjúklingarétti með beikoni, hvitlauk og döðlum sem er hin mesta snilld. Valgerður er snillingur í eldhúsinu og við hreinlega urðum að blikka hana til að gefa okkur uppskriftina að þessum ómótstæðilegu snúðum sem eru betri en bakaríssnúðar….geri aðrir betur. Njótið vel

snúðar

Mér finnast þessir snúðar miklu betri en þeir sem fást í bakaríum og það er auk þess talsvert ódýrara að gera þá heima. Það er auðvelt að frysta þá og taka þá bara svo út og hita upp eftir þörfum. Þeir eru svo ótrúlega lítið vesen að það er eiginlega bara lygilegt. Hráefnið er mjög ódýrt en það eru nokkur atriði í aðferðinni sem gerir það að verkum að þeir verða alveg svakalega mjúkir og góðir. Algerlega fullkomnir í helgarbaksturinn eða þegar ætlunin er að baka mikið og eiga í frysti. Þá er tilvalið að tvöfalda uppskriftina!

Snúðar betri en úr bakaríi
700 g brauðhveiti frá Kornax (í bláum pokum, mæli með því að nota frekar brauðhveiti í gerbakstur)
1 1/2 tsk salt
4 tsk þurrger
80 g sykur
4 dl volgt vatn
1 dl jurtaolía

Fylling:
3msk sykur
3msk púðursykur
1 msk kanill
Blandið saman í skál

  1. Setjið saman þurrefnin í hrærivélaskál og blandið aðeins saman með króknum. Bætið við vökvanum og hnoðið í hrærivélinni, fyrst mjög varlega en aukið svo aðeins hraðann. Hér er lykilatriði að hnoða deigið lengi. 5 mínútur er gott, mæli með því að fylgjast með tímanum, ég tók einmitt úr uppþvottavélinni og fór að raða í hana á meðan!
    Látið hefast á volgum stað með rakt stykki yfir í ca. 30 mín.
  2. Takið svo deigið úr skálinni og setjið á hveitistráða borðplötu. Fletið það út í nokkuð góðan ferhyrning og stráið sykur/kanilblöndunni jafnt yfir deigið (Athugið að ég set ekkert smjör undir sykurinn!). Rúllið upp í lengju og lokið kantinum með því að pensla hann með vatni. Skerið lengjuna í hæfilega snúða og raðið á plötu.
    Nú kemur annað gott trix. Hitið ofninn í 50°c, úðið snúðana og ofninn að inna með volgu vatni og setjið í ofninn. Látið hefast í ofninum í 45mín. Úðið snúðana 1x-2x á tímanum.
  3. Takið snúðana út og hitið ofninn í 220°c. Bakið þá í ca. 10-12 mín, fer þó eftir ofnum. Fylgist bara með.
  4. Mér finnst best að setja súkkulaðiglassúr, ég slumpa flórsykri, smá kakói og örlítilli slettu af mjólk (má alveg vera vatn til að hafa þá mjólkurlausa) og blanda saman, betra að hafa hann þykkari en þynnri. Set á þá þegar þeir eru orðnir nánast kaldir (svo glassúrinn leki ekki útum allt!)Þessir eru algert æði!

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.