Brauðið

Home / Brauð & samlokur / Brauðið

Reisulegt & fallegt, hér fyllt með hvítlauk og rósmarín

Hafið þið reynt að gera heimabakað brauð, en aldrei tekist almenninlega? Eftir að þið prufið þessa uppskrift er misheppnaður brauðbakstur úr sögunni. Undirbúið ykkur undir aðdáun annarra og mögulega frægð (amk meðal fjölskyldu og vina) fyrir brauðIÐ ykkar!  Fólk á eftir að dásama útlitið, bragðið og biðja ykkur um uppskriftina. Eftir að þið hafið prufað þetta að eru þið orðnir bakarameistarar á ykkar heimili!  Uppskriftin að þessu kemur frá Sullivan Street Bakery og hefur notið gríðarlegra vinsælda og alveg skiljanlega.

Ef þið viljið nýbakað brauð á 2 tímum þá er þetta hinasvegar ekki rétta brauðið, því það þarf að liggja í 18 klst. EN ekki láta það stoppa ykkur. Þetta gæti ekki verið einfaldara. Eina sem þið þurfið að gera er að skella í deigið kvöldinu áður (tekur 5 mín) fara að sofa og svo daginn eftir baka brauðið. Ég les uppskriftir aldrei almenninlega yfir áður en ég geri þær og því hafði ég mörg tækifæri til að láta hana klikka, en viti menn, brauðið var alltaf óaðfinnanlegt. Engu að síður mæli ég með því að þið lesið uppskriftina yfir áður en þið gerið hana.

Besta brauðið
3 bollar hveiti (1 bolli 240 ml)
1/4 tsk þurrger
1 tsk salt
1 1/2 bolli volgt vatn
pottur eða form með loki sem þolir hita

Hér, eins og í hinum uppskriftunum, er gaman að prufa sig áfram. Í brauðið er einnig hægt að láta í deigið hvítlauk, rósmarín, sítrónubörk, ólífur,rúsínur, oregano, ost og allt það sem hugurinn girnist. Ég hef líka prufað að láta 1 bolla spelt á móti 2 bollum af hveiti og það tókst frábærlega.

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnum (ef þið ætlið að vera með krydd eða fyllingu að þá koma þau hér) og síðan vatni í stóra skál. Hrærið með trésleif þar til deigið hefur blandast vel saman. Breiðið yfir með plastfilmu og látið liggja í 12-20 tíma við stofuhita.
  2. Brauðið er nú blautt og freiðandi. Með blautri sleif skafið deigið úr skálinni á hveitistráð borð. Hnoðið. Mótið brauðið leggið á smjörpappír og látið liggja með plastfilmu yfir sér í um 30 mín.
  3. Á meðan deigið er að hefast látið pottinn og lokið í ofninn í 200°c ofn í um 30 mínútur.
  4. Takið pottinn úr ofninum, leggið brauðið með smjörpappírnum í pottinn. Lokið pottinum og látið inní ofninn. Bakið í um 30 mínútur. Takið lokið af og bakið í um 15-20 mínútur eða þar til skorpan er ljósbrún að lit.
  5. Takið úr ofninum og látið kólna á grind.
  6. Klappið fyrir ykkur og þessu dásamlega brauði sem þið voruð að baka!

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.