BUGL – Tæland og bragðmikil mexíkósúpa með kjúklingi

Home / Kjúklingur / BUGL – Tæland og bragðmikil mexíkósúpa með kjúklingi

forsida

Fljótlegir réttir fyrir sælkera
Síðustu vikur hefur verið mikið að gera í kringum bók mína – Fljótlegir réttir fyrir sælkera – og óhætt að segja að hver einasta mínúta verið vel skipulögð. Ég hef fengið að upplifa ótrúlega skemmtilega hluti og þar ber helst nefna dásamlegar viðtökur ykkar við bókinni – sem er framar öllum vonum – fyrir það er ég ólýsanlega þakklát.

Síðustu daga hef ég svo farið langt fyrir utan þægindarammann með því að fara í útvarps- og sjónvarpsviðtöl sem ég reyndi af öllum mætti að vera ekki stressuð fyrir…en var það nú samt. En bæði útvarp og sjónvarp er svo allt annar hlutur en það að sitja fyrir framan tölvuna og skrifa það sem manni dettur í hug – þar er alltaf hægt að stroka út. En bara gaman af þessu og eitthvað sem ég ætla klárlega að halda áfram að gera, það er að segja að ögra sjálfri mér, fá fiðrildi í magann og gera hluti sem mér hefði aldrei órað fyrir að ég myndi gera.

bugltinna

BUGL
Vikan mín endaði á kærkomin hátt þar sem ég fór og afhenti gamla góða vinnustaðnum mínum BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landsspítalans) 100.000 króna ávísun sem fyrsta hluta af ágóða bókarinnar GulurRauðurGrænn&salt – Fljótlegir réttir fyrir sælkera. Á BUGL vann ég sem hjúkrunarfræðingur í nokkur ár og á sá staður svo sérstakan stað í hjarta mér og þá sérstaklega starfsfólkið, börnin sem þar dvelja og fjölskyldur þeirra sem ég kynntist á þeim tíma sem ég vann þar. Það var því góð tilfinning að getað endurgoldið fyrir þennan ómetanlega tíma á þennan hátt.
Ég fékk frábær fyrirtæki með mér í lið en það var IKEA sem gaf börnunum á legudeild BUGL sængur, kodda og koddaver sem var löngu orðið tímabært að endurnýja. Spilavinir gáfu börnunum spil er það kærkomin gjöf enda mikið spilað á deildinni. Síðast en ekki síst gaf Nói Sírius börnunum jólanammi sem vakti nú ekki síður lukku – þið getið rétt ímyndað ykkur. Færi ég þessum aðilum sérstakar þakkir fyrir að hafa viljað taka þátt í þessu með mér.  Ef bókin heldur áfram að seljast svona vel mun ég mæta aftur á BUGL á nýju ári og endurtaka leikinn – með glöðu gleði. Bókin fæst í öllum helstu bóka- og matvöruverslunum en hana má einnig kaupa á vef GulurRauðurGrænn&salt og fá hana senda heim að dyrum án aukakostnaðar.

thaid


Tæland

Nú tekur við nýtt ferðalag og það í orðsins fyllstu, en ég er stödd í Noregi á leið til Tælands í dag, þar sem ég ætla að dvelja með fjölskyldunni yfir jólin. Pabbi minn er svo mikill snillingur að hann býr þar yfir vetramánuðina og er nú komið að því að heimsækja hann. Ég get ekki lýst því hvað ég hlakka mikið til að komast í sólina.
Það er hinsvegar engin ástæða til að örvænta enda munu uppskriftirnar áfram koma inn á GulurRauðurGrænn&salt með fljótlegum og bragðgóðum réttum eins og er von og venja. Ég hvet þá sem ekki eru að fylgjast með okkur á Instagram að gera það, enda mun ég þar birta myndir og jafnvel myndbönd af ferðalaginu og reyna að gefa ykkur góða mynd af matarmenningu Tælands. Einhverjir hafa manað mig til að bragða á skordýrum og aldrei að vita hvað gerist í þeim efnum….stay tuned ;)

Bragðmikil mexíkósúpa með kjúklingi
Hér kemur svo uppskrift af bragðmikilli og ljúffengri kjúklingasúpu en á veturna er fátt betra en að gæða sér á góðri súpu sem yljar þegar að kuldinn nístir inn að beini. Góðar súpur vekja ávallt mikla lukku og henta bæði hversdags og eins  þegar maður vill gera sér glaðan dag með góðum vinum. Súpan er einföld í gerð og jafnvel enn betri daginn eftir.

_MG_4916

Bragðmikil mexíkósúpa með kjúklingi
Fyrir 4-6
1 msk olía
1 laukur, smátt skorinn
100 gr blaðlaukur, smátt skorin
1 rauð paprika, smátt skorin
1 stk grænt chili, smátt skorið
6 stk plómutómatar, skornir í teninga
1 grillaður kjúklingur, rifinn niður
2 tsk paprikuduft
3 msk tómatpurré
1,5 lítri kjúklingasoð
2 dl salsa sósa
100 gr rjómaostur

Meðlæti
Tómatur, skorinn í teninga
Rauðlaukur, saxaður
Sýrður rjómi
Kóríander, saxað
Nachos flögur

  1. Steikið lauk, blaðlauk, papriku, chillí og plómutómata í 3-5 mínútur við meðalhita. Bætið þá kjúklingi, paprikudufti og tómatpurré saman við. Hellið kjúklingasoðinu út í og látið sjóða í 15- 20 mín við vægan hita.
  2. Bætið salsasósu og rjómaosti saman við súpuna og látið sjóða í 3-5 mín við vægan hita.
  3. Berið súpuna fram með góðu meðlæti að eigin vali.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.