Rababarakaka með marengstoppi

Home / Fljótlegt / Rababarakaka með marengstoppi

Það eru eflaust þó nokkrir sem eiga birgðir af rababara frá því í sumar. Ég er reyndar ekki svo lánsöm, en rakst hinsvegar á frosinn rababara í búð á dögunum og fékk skyndilöngun í góða rababaraköku. Þessi kaka er búin að vera á to do listanum mínum í ansi langan tíma og nú var komið að því. Ekki varð ég fyrir vonbrigðum enda bæði mikill aðdáandi rababara og marengs og þarna náði ég algjörri bestun.

Ekki skemmir fyrir hversu einfalt er að útbúa þessa rababaramarengsköku og til að gera þetta enn auðveldara má meira að segja gera botninn deginum áður og klára svo seinna stig bakstursins rétt áður en hún skal borðuð. Rababarinn fæst frosinn í nokkrum sérvöldum matvöruverslunum hér á landinu en fyrir ykkur sem getið ekki nálgast hann mæli ég með því að setja ber á milli. Passið bara að ef þið eruð að nota frosinn rababara eða frosin ber að þið afþýðið þau algjörlega þannig að allur vökvinn leki af þeim, annars gæti farið illa. Njótið vel.

IMG_6503

IMG_6404

IMG_6497

 

Rababarakaka með marengstoppi
120 g smjör, mjúkt
100 g hrásykur
1 vanillustöng
1 ½ tsk lyftiduft
¼ tsk salt
3 dl hveiti
2 eggjarauður
½ dl mjólk
500 g rababari, skorinn í um 1 cm sneiðar

Marengs
3 eggjahvítur
2,25 dl sykur
100 g saxaðar möndlur (má sleppa)

 

  1. Kljúfið vanillustöngina í tvennt og skafið fræin úr.
  2. Hrærið smjöri og hveiti saman og bætið því næst hrásykri, fræjunum úr vanillustönginni, lyftidufti, salti, eggjarauðum og mjólk saman við og hrærið vel saman.
  3. Setjið smjörpappír í bökunarform (26 cm) og látið í 200°c heitan ofn í 25-30 mínútur. Takið úr ofninum og kælið.
  4. Gerið á meðan marengsinn. Þeytið eggjahvíturnar og bætið sykri smátt og smátt saman við. Þeytið þar til marengsinn er orðinn stífur eða í góðar 5-10 mínútur.
  5. Blandið möndlunum varlega saman við marengsinn með sleif.
  6. Hellið rababaranum varlega á kökuna og dreifið vel úr honum og setjið síðan marengsinn yfir allt og látið inn í 180°c heitan ofn í um 20 mínútur. Fylgist vel með því að marengsinn brenni ekki. Berið kökuna strax fram.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.