Frönsk súkkulaðikaka með karamellufyllingu

Home / Fljótlegt / Frönsk súkkulaðikaka með karamellufyllingu

Er ekki til eitthvað sem heitir mánudagskaka? Ef ekki þá búum við það til hér með og bjóðum ykkur uppskrift af himneskri mánudagsköku. Kakan er í ætt við frönsku dásemdina sem við þekkjum flest og elskum að baka því hún er ávallt svo fljótleg en um leið svo dásamlega góð.

Þessi er svo uppfærð útgáfa af frönsku súkkulaðikökunni því hér bætum við um betur og setjum í hana heimagerða karamellu.  Reyndar gerði ég gott um betur og toppaði kökuna með karamellusósu en það er náttúrulega algjör vitleysa eða hin mesta snilld, dæmi hver fyrir sig.

Gleðilegan mánudag fallega fólk og njótið dagsins.

 

IMG_9525

Hversu mikið af sósu er of mikið???

IMG_9398

Karamellufyllingin

IMG_9598

Borðið og njótið!

Frönsk súkkulaðikaka með karamellufyllingu
Karamella
150 g sykur
50 g smjör
1 dl rjómi
¼ tsk salt

Súkkulaðikaka
100 g suðusúkkulaði, t.d. frá Nóa Síríus
125 g smjör
200 g sykur
1 tsk vanilludropar
hnífsoddur salt
2 egg
100 g hveiti

 

  1. Gerið karamelluna með því að bræða sykur í potti við meðalhita. Þegar sykurinn hefur bráðnað og er orðinn gylltur takið þá pottinn af hitanum og setjið smjörið saman við.
  2. Hrærið þar til það hefur leyst upp í sykurinn. Hrærið rjóma og salti saman við. Setjið pottinn aftur á hitann á látið malla í nokkrar mínútur.
  3. Hellið því næst karamellunum í form (ég notaði það sama og fyrir kökuna) með smjörpappír og látið í frysti þar til karamellan er orðin tiltölulega stíf eða í um 30-40 mín.
  4. Gerið súkkulaðikökuna með því að setja smjörpappír í botninn á 24 cm formi og smyrjið hliðar með smjöri.
  5. Bræðið súkkulaði og smjör saman og setjið síðan í hrærivélaskál ásamt sykri, vanilludropum, salti og eggi og hrærið saman. Sigtið hveiti saman við og hrærið varlega saman við deigið.
  6. Takið karamelluna úr frysti og skafið hana af smjörpappírnum með skeið og setjið saman við deigið. Hrærið saman með sleif. Hellið deiginu í formið og bakið við 180°c í um 30 mínútur. Leyfið kökunni að kólna örlítið áður en kakan er tekin úr forminu.
  7. Berið kökuna fram með ís og/eða rjóma og fyrir karmelluaðdáendur mæli ég með því að hafa karamellusósu í lítilli könnu svo hver sem vill getur hellt smá karamellusósu yfir hverja sneið fyrir sig eftir smekk.

 

Karamellusósa
120 g smjör
1 1/2 dl rjómi
120 g púðursykur

  1. Setjið öll hráefnin í pott og hitið við meðalhita þar til karamellan fer að sjóða og hrærið reglulega í henni. Takið af hitanum þegar hún hefur náð réttri þykkt.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.