Vegamót Bíldudal

 

Um verslunarmannahelgina lá leiðin á Bíldudal þar sem ungir og aldnir (eða kannski meira svona miðaldra) skemmtu sér konunglega. Bíldudalur skartaði sínu fegursta eins og svo oft áður og bauð upp á rjómablíðu. Það er nú mín reynsla að sama hvernig spáin er þá virðist alltaf vera gott veður á Bíldudal.

Áður en ég lagði af stað vestur spurði ég lesendur á Instagram hvaða staði þeir myndu mæla með að matgæðingurinn prufaði á Vestfjörðum. Upp komu margar frábærar tillögur og mjög margir sögðu að ég yrði að fara á Vegamót en þar fengi ég “fish & chips” sem væri það besta á landinu – jafnvel í öllum heiminum. Að sjálfsögðu varð ég að fórna mér í það verkefni.

 

 

Vegamót sem er staðsett á Tjarnarbraut 2 er ekki einungis veitingastaður, heldur matvöruverslun, bar, kaffihús og að auki hálfgerð félagsmiðstöð. Vegamót hefur verið í rekstri í yfir 30 ár en árið 2017 tóku hjónin Gísli Ægir Ágústsson og Anna Vilborg Rúnarsdóttir við rekstrinum. Þau hjónin hafa staðið fyrir ýmisskonar viðburðum eins og tónleikum, bingókvöldi, villibráðakvöldi svo eitthvað sé nefnt.

Besta “fish & chips” í heimi?

Matseðillinn á Vegamótum er fjölbreyttur og greinilega mikill metnaður lagður í eldamennskuna. Verðinu er stillt í hóf og boðið er uppá fjölbreyttan barnamatseðil þar sem þau geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Ég prufaði nokkra rétti af matseðlinum og játa það að þetta er klárlega besta “fish & chips” sem ég hef á ævinni bragðað. Borið fram með chilí mayo og bestu frönskum sem ég hef á ævinni bragðað. Stórar og feitar og extra stökkar…namm.

Kjúklingasalatið er til fyrirmyndar

Annað uppáhald var kjúklingasalatið, virkilega metnaðarfullt, fallegt og bragðgott.   Ég prufaði sjálf ekki lambakjötið en fólkið sem ég var með gaf því toppeinkunn og mikið sem það leit vel út. Hamborgararnir voru líka algjört gúrm og nokkrar tegundir í boði, þar á meðal grænmetisborgari sem ég náði því miður ekki að prufa (I’ll be back).

Einn með öllu og bestu frönskum sem ég hef bragðað

Gott viðmót starfsfólks og frábær matur á notalegum stað gera upplifunina virkilega góða. Punktinn yfir i-ið setur svo stóri pallurinn við húsið þar sem hægt er að borða á þegar vel virðar og óhætt að segja að hann hafi verið vel nýttur yfir verslunarmannahelgina.

Ef þið eruð í nágrenni við Bíldudal er Vegamót skyldustopp.

Frekari upplýsingar um Vegamót má finna hér.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.