Nýlega kom út fyrsta bók GulurRauðurGrænn&salt – Fljótlegir réttir fyrir sælkera – en hún inniheldur uppskriftir að fljótlegum kvöldmat, meðlæti og eftirréttum sem hentar bæði virka daga og um helgar og er sérstaklega hugsuð fyrir þá sem elska að borða góðan mat en hafa ekki mikinn tíma til að standa í eldhúsinu.
Í bókinni er mikið um nýjar og dásamlegar uppskriftir og má þar meðal annars nefna þessa frábæru uppskrift af Kúlugotti sem hefur heldur betur slegið í gegn hjá landsmönnum enda skal engan undra því hér er á ferðinni sælgæti sem er engu líkt. Eða eins og sagt er, einu sinni smakkað – þú getur ekki hætt! * Bókin kostnar 2.000 kr með sendingarkostnaði og hana má panta á berglind@grgs.is.
Hnetusmjör er svo miklu meira en bara álegg. Hér rennur það saman við Rice Krispies og fleira gúmmelaði og verður að gómsætu konfekti, eftirrétti – eða bara hvenær-sem-er-rétti! Stökkt, mjúkt og svo ólýsanlega gott. Þetta er jólakonfektið í ár!
Kúlugott
Gerir 35 litlar kúlur
Eldunartími 20 mínútur
260 g hnetusmjör
50 g rice krispies
300 g flórsykur
30 g smjör, brætt
300 g suðusúkkulaði
- Látið öll hráefnin saman í hrærivél og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Hnetusmjör hafa mismunandi áferð þannig að ef kúlurnar eru of blautar bætið þá meiri flórsykri saman við, ef þær eru of þurrar, bætið meira hnetusmjöri saman við.
- Hnoðið litlar kúlur úr deiginu. Dýfið þeim í brætt súkkulaðið og geymið á ofnplötu hulda smjörpappír, þar til súkkulaðið hefur harðnað lítillega.
- Geymið í kæli eða frysti og laumist í þær eftir löngun.
Leave a Reply