Ofnbakaður hafragrautur með ferskum jarðaberjum

Home / Ofnbakaður hafragrautur með ferskum jarðaberjum

Nú skulu þið setja ykkur í stellingar kæru lesendur því ég ætla að gera á ykkur smá próf.
Setjist niður, róið hugann og prufið í eina mínútu að hugsa um allt nema….bleikan fíl. Það ætti ekki að vera mikið mál enda, í alvörunni, hver hugsar nokkurn tíman um bleikan fíl???
Látið mig vita hvernig þetta gekk hjá ykkur ;)

Af hverju byrja ég þessa færslu á þessari “þraut”? Jú ástæðan fyrir því er sú að ég er búin að vera að hugsa í nokkra daga núna með hvaða færslu mig langaði að hefja árið 2014. Það eina sem ég var hinsvegar með algjörlega á hreinu var að árið skyldi ekki byrja á uppskrift af hafragrauti. Enda hversu fyrirsjáanlegt væri það? Sú færsla myndi helst minna á atriði úr Fóstbræðrum þar sem einn finnst vinur sinn vera orðinn helst til of fyrirsjáanlegur og veit hvað hann mun segja áður en hann hugsar það og veit síðan ekki hvert hann ætlar þegar vinurinn gubbar því loks út úr sér..hrein snilld (og smá útidúr).

En allavegana hér er hún, fyrsta færsla ársins…tadararaaaaaaaaaaa: Ofnbakaður hafragrautur með ferskum jarðaberjum…já maður er víst mannlegur eftir allt saman.
En mér til varnar að þá er þetta að sjálfsögðu enginn venjulegur hafragrautur, heldur svona ofurEldaður í ofni og stútfullur af góðri næringu eins og eggjum, ferskum ávöxtum, hnetum og kanil. Þessi er algjört eðal og lætur daginn byrja þrusuvel. Með eða án bleikum fílum..ykkar er valið!

2014-01-06 14.53.59

Hafrablandan látin í ofnfast mót ásamt jarðaberjum

2014-01-06 15.01.52

Bananasneiðum bætt saman við

2014-01-06 15.32.02

 Hrein dásemd nýkomin úr ofni og tilbúin að diskinn þinn!

 

Ofnbakaður hafragrautur með ferskum jarðaberjum
180 g haframjöl
2 msk púðusykur (má sleppa)
1 tsk lyftiduft
1 tsk kanill
1/2 tsk salt
100 g valhnetur, saxaðar
1 lítil askja jarðaber (eða önnur ber að eigin vali)
480 ml mjólk
1 egg
3 msk brætt smjör
1 tsk vanilludropar
1 þroskaður banani, skorinn í sneiðar

  1. Blandið haframjöli, sykri, lyftidufti, salti, helmingnum af valhnetunum og helmingnum af berjunum saman í skál.
  2. Í aðra skál skulu þið láta mjólk, egg, smjör og vanilludropa og hræra vel saman.
  3. Smyrjið ofnfast mót og látið haframjölsblönduna í botninn. Stráið síðan afganginum af hnetunum og berjum yfir haframjölsblönduna og raðið síðan bananasneiðum yfir allt.
  4. Hellið mjólkurblöndunni yfir allt saman og hristið formið örlítið þannig að þetta blandist vel saman. Fyrir þá sem vilja smá aukasætu er gott að strá smá púðusykri yfir allt saman í lokin.
  5. Bakið í 170°c heitum ofni í 30-40 mínútur.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.