Sumardagurinn fyrsti á sérstakan stað í mínu hjarta og er að mínu mati aðeins öðruvísi en hinir dagarnir. Ég vil meina að ég hafi fæðst á þessum degi (óstaðfest) og hafi því fengið í vöggugjöf jákvætt hugarfar sem hefur gagnast mér einstaklega vel í gegnum lífið (staðfest). Svona sól í hjarta þó úti hafi verið...

Sumardagurinn fyrsti á sérstakan stað í mínu hjarta og er að mínu mati aðeins öðruvísi en hinir dagarnir. Ég vil meina að ég hafi fæðst á þessum degi (óstaðfest) og hafi því fengið í vöggugjöf jákvætt hugarfar sem hefur gagnast mér einstaklega vel í gegnum lífið (staðfest). Svona sól í hjarta þó úti hafi verið rigning eða stormur.

Á þessum degi sem öllum hinum er það í raun eina sem skiptir máli – að finna sína sól í hjarta þó veðrið sé allskonar og aðstæður lífsins einnig. Það getur verið krefjandi og engin ein leið þangað heldur verður hver að finna sitt. Þó er eitt sem ég held að geti hjálpað öllum í þeirri leit – náttúran. Komast frá áreitinu og örva skilningarvitin. Heyra vatnið renna, labba berfættur á steinum, finna lyktina af gróðrinum, sjá alla fallegu litina sem náttúran bíður okkur uppá og ég vil meina að séu dekurnudd fyrir augun.

Uppskriftin í dag er óður til sumarsins. Því hvað er sumarlegra en sítrónur? Þessa uppskrift minnir mig að ég hafi rekist á í Gestgjafanum fyrir mörgum árum síðan kannski 10 -15 árum en  ég hef reglulega hugsað til hennar síðan en aldrei fundið aftur – fyrr en nú.

Það var okkar ástkæri útvarpsstjórnandi hún Sigurlaug Margrét Jónasdóttir sem eldaði þessa uppskrift úr matreiðslubók ítölsku leikonunnar Sophiu Loren. Fram að þessum tíma hafði ég einfaldlega ekki hugmynd um að þessi heillandi og hæfileikaríka leikona væri einnig meistarakokkur. Sophia lagði áherslu á að eldamennska ætti að veita ánægju en ekki vera kvöð.

Eldhúsráð Sophiu

  1. Haltu þig við það sem þú kannt
    Sophia gaf út nokkrar matreiðslubækur en þegar kom að því að elda fyrir ástvini sína hélt hún sig við einfaldar uppskriftir eins og pasta, pizzu eða fiskrétt með fáum hráefnum en góðum. Hún sleppti oft eftirréttum því henni þótti einfaldlega erfiðara að útbúa þá vel.
  2. Besti staðurinn fyrir góðar samræður er í eldhúsinu
    Samkvæmt Sophiu er besti tíminn til að eiga góðar samræður við fjölskyldumeðlimi einmitt yfir eldamennskunni. Að hennar mati talar maður þá frekar um hluti sem ekki hafa verið sagðir áður.
  3. Þú mátt svo sannarlega borða pasta á hverjum degi
    Það eru allskonar boð og bönn í gangi um hvað við megum borða en ég vil meina að við eigum ekki að sleppa pasta. Horfðu á það og fáðu þér lítinn skammt. Þannig getur þú með góðu móti fengið þér pasta á hverjum degi.
  4. Ekki missa þig í skipulagi
    Þegar Sophia kom heim úr fríi með fjölskyldunni lagði hún áherslu á að vera í fríinu og njóta þess. Þegar hún kom heim opnaði hún ísskápinn og notaðist við það sem var til við eldamennskuna. Ef það var ekkert til pantaði hún sér bara mat heim. Ekki ofhugsa hlutina og njóttu þess að slaka á.
  5. Stundum er besti maturinn enginn matur
    Þegar Sophia var beðin um að gefa tillögu að rómantískri máltíð sagði hún að það væri einfaldlega engin máltíð og beið eftir næstu spurningu blaðamanns. (Undirtexti: Af hverju ætti einhver að vilja borða þegar ástin er í loftinu).
Sítrónupasta Sophiu Loren

Sítrónupasta Sophiu Loren
Fyrir 3-4
500 g ferskt spaghetti frá RANA
5-6 hvítlauksgeirar
safi úr fjórum sítrónum plús börkur af einni sítrónu
1/2 l rjómi
1-2 msk Philadelphia rjómaostur
handfylli af steinselja
salt
nýmalaður pipar
fullt af parmesanosti!!

  1. Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningu á pakkningu.
  2. Hitið olíu á pönnu og léttsteikið hvítlauk. Passið að hann brenni ekki.
  3. Bætið sítrónusafanum út og láta malla örlítið en ekki sjóða.
  4. Hellið rjómanum út í ásamt rjómaosti og láta malla.
  5. Bætið við parmesanosti og steinselju blanda vel saman.
  6. Hellið vatninu af pastanum og blandið skvettu af því því saman við sósuna.
  7. Berið fram strax og piprið hressilega.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.