Skötuselur með mangósalsa

Home / Skötuselur með mangósalsa

Fallega litríkur og bragðgóður réttur

Fiskur er ekki bara fiskur. Góður fiskur getur verið hinn besti veislumatur sé hann eldaður rétt og á skemmtilegan hátt. Hugmyndirnar eru margar og ég hvet ykkur til að prufa ykkur áfram og gera nýja og spennandi rétti sem innihalda fisk. Þessi réttur er frábær á bragðið, eitthvað sem hentar öllum aldurshópum og litirnir halda áfram að gleðja.
Skötuselurinn og mangósalsa passa sérstaklega vel saman og svörtu baunirnar gefa svo réttinum öðruvísi og skemmtilegt bragð. Synd hvað ég er léleg að elda mat með baunum í, fyrir utan hið klassíska ora-baunabrauð. Stefni á að bæta mig í þessu á næstunni og kynna fyrir mér og ykkur gúmmilaði uppskriftir sem innihalda allskonar baunir.

Skötuselur með mangósalsa fyrir 4-5
7-800 gr af skötusel
5-6 plómutómatar, smátt skornir
1 mangó, smátt skorið
1 rauðlaukur, smátt skorinn
1 búnt kóríander, saxað
2 msk sítrónusafi
1 msk hrísgrjónaedik
1 tsk sykur
2 hvítlauksrif
salt og pipar
1 dós svartar baunir
cumin (ekki kúmen)
chillíkrydd

Aðferð

  1. Blandið varlega saman í skál tómötum, mangó, rauðlauk, kóríander, sítrónusafa, ediki, sykri og hvítlauksrif. Saltið og piprið lítillega.
  2. Látið olíu á fiskinn og saltið og piprið. Steikið á pönnu við mikinn hita í 3 mínútur á hvorri hlið og látið fiskinn inní 200°c heitan ofn í nokkrar mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður.
  3. Sýjið vökvann af baununum. Kryddið með cumin og chillíkryddi.
  4. Raðið á disk baunum, fiski og látið síðan mangósalsa yfir fiskinn.

Þessi réttur er góður með hrísgrjónum og sósu eins og sweet chillí sósu (sýrður rjómi og smá sweet chillí blandað saman). Fyrir þá sem alls ekki vilja baunir er einnig gott að hafa sæta kartöflumús í staðinn.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.