Eggjanúðlur með nautakjöti og fullt af grænmeti Thailenskar eggjanúðlur með nautakjöti og basil Þessi réttur er léttur en saðsamur. Nautakjötið er kærkomin hvíld frá kjúklingnum, en að sjálfsögðu má skipta nautakjötinu út fyrir kjúklingi eða lambakjöti. Tilvalið er að nota í þennan rétt það grænmeti sem til er í ísskápinum, því meira grænmeti því betra....

Eggjanúðlur með nautakjöti og fullt af grænmeti

Thailenskar eggjanúðlur með nautakjöti og basil
Þessi réttur er léttur en saðsamur. Nautakjötið er kærkomin hvíld frá kjúklingnum, en að sjálfsögðu má skipta nautakjötinu út fyrir kjúklingi eða lambakjöti. Tilvalið er að nota í þennan rétt það grænmeti sem til er í ísskápinum, því meira grænmeti því betra. Það tekur smá tíma að gera þennan rétt, en það felst aðallega í því að skera niður hráefnið að öðru leyti er þetta einfalt.

Hráefni fyrir 2-3 manns
250 gr. nautakjöt fillet, skorið í örþunnar sneiðar
200 gr. eggjanúðlur
3 msk soyasósa
1 msk púðusykur
búnt vorlaukur
5 hvítlauksrift, söxuð
Engifer um 3 cm, skorið í þunna strimla
1 rauð paprika, skorin í strimla
1 appelsínugul/gul paprika, skorin í strimla
1 lítið brokkólí, skorið niður
2 gulrætur, skornar í strimla
1 rautt chillí, skorið niður
1 lúka ferskt basil
1 msk. sesamolía
2 msk olía

Sósa
150 ml. kjúklingakraftur
3 msk ostrusósa
3 msk sherry
1 msk fiskisósa
2 msk púðusykur
1/2 tsk chillí flögur
2 msk maizenamjöl

Aðferð

  1. Skerið kjötið í þunnar sneiðar. Hrærið saman soyasósunni og púðursykrinum (1 msk) og hellið yfir kjötið. Látið marinerast.
  2. Sjóðið núðlurnar þar til þær eru næstum því tilbúnar og eilítið harðar. Skolið með köldu vatni.
  3. Bætið öllum hráefnunum saman fyrir sósuna, síðast maizenamjölinu.
  4. Hitið pönnuna á meðalhita. Bætið út í 2-3 msk. af olíu og svissið laukinn, hvítlaukinn, engifer og ferska chillíið. Eftir 1-2 mínútur: Bætið kjötinu út í og steikið í um 3 mínútur eða þar til kjötið er létteldað. Bætið þá út í 2-3 msk. af sósunni.
  5. Bætið út í gulrótunum og smá sósu. Eftir um 1 mín bætið afganginum af grænmetinu saman við. Haldið áfram að bæta við sósu ef þarf, en ekki það mikið að hráefnin séu að sjóða á pönnunni.
  6. Að endingu skuluð þið bæta núðlunum út í ásamt allri sósunni. Núðlurnar munu draga í sig mest allan vökvann. Eldið í um 4 mínútur.
  7. Þegar núðlurnar eru eldaðar og mest öll sósan horfin takið af hellunni og bragðið. Ef rétturinn er ekki nægilega saltur skuluð þið bæta meiri fiskisósu eða soya út í. Ef rétturinn er of saltur kreistið þá sítrónu eða lime safa yfir.
  8. Hellið smá sesamolíu yfir hvern skammt og skreytið með basil og limesneiðum.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.