Allegrini La Grola

Home / áfengi / Allegrini La Grola

Umhelling

Margir spyrja hvað þýði að umhella víni. Sumir telja það óþarfa en aðrir mikla það fyrir sér og jafnvel forðast það. Umhelling er sáraeinföld leið sem felur í sér að hella víni úr flöskunni í karöflu og á sér tvo megin kosti til að draga fram það besta í víninu; Í fyrsta lagi er það gert til þess að aðskilja korginn frá víninu sem gæti hafa safnast í flöskuna við framleiðslu eða geymslu og í öðru lagi er það til þess að koma súrefni í vínið.

Áður en þú rýkur fram í eldhús til að umhella þá ber að hafa í huga hvers konar vín þú ert með í höndunum því umhelling er ekki framkvæmd eins í öllum tilfellum. Í fljótu bragði má segja að yngra víni er umhellt á annan hátt en eldra víni.

Ungt vín: Segjum sem svo að þú hafir kippt með góðu steikarvíni á viðráðanlegu verði á leiðinni heim fyrir kvöldið. Í þessu tilfelli eru miklar líkur eru á því að vínið er ekki nema nokkurra ára gamalt og hefur þar með ekki náð fullum þroska. Í þessu tilfelli er tilvalið að umhella víninu þar sem umhellingin mun koma af stað stórkostlegu ferli þegar súrefni kemst í návígi við vínið. Vínið hreinlega lifnar við! Ung vín mega standa í karöflunni í þónokkurn tíma áður en því er hellt í glös en best finnst mér að smakka á því á meðan ferlið er að eiga sér stað sem getur verið allt frá 1 klst og upp í 3 daga.

Eldra vín (15+ ára): Það er komið að því að þú ætlir loksins að opna rauðvínsflöskuna sem þú ert búin/n að geyma til fjölda ára. Ég mæli stranglega með að henni sé umhellt til að losa hana við korginn sem gæti hafa safnast og að hún sé ekki látin standa lengi í karöflunni og umhellingin notuð til að leyfa henni að taka djúpt andann áður henni er rennt niður. Hægt er að umhella hvaða rauðvíni eða hvítvíni sem er en það er alls ekki skylda.

 

 

Allegrini La Grola Vá!
La Grola er mjög áhugevert vín. Við fyrsta smakk beint úr flösku er hún frekar lokuð og bragðsterk enda ekki furða fyrir svona ungt steikarvín. En eftir að þú umhellir henni gerist eitthvað geggjað! Vínið þróast úr því að vera þungt og mikið yfir í það að springa úr gleði með yndislegum berjatónum. Umhelltu víninu og leyfðu því að standa í a.m.k. 30 mín áður en því er skengt. Ég drakk vínið eitt og sér en mun klárlega kaupa mér steik með því næst. La Grola kostar 3.490 kr. í Vínbúðinni og fær sléttar 4.2*.
HMB.

Hafliði Már er flugmaður hjá WOW og mikill matgæðingur ásamt því að vera áhugamaður um góð vín. Hans markmið er að aðstoða lesendur við að finna gæðavín á góðu verði – svona faldar perlur. Lesendur geta treyst því að þegar Hafliði mælir með einhverju þá er það „magic“!

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.