Þorskur með bragðsterku rauðlauksmauki og kryddjurtasósu
Ein af mínum uppáhalds matreiðslubókum er Heilsuréttir fjölskyldunnar eftir Berglindi Sigmarsdóttur. Þessi uppskriftarbók er frábær, uppskriftirnar eru bragðgóðar, einfaldar í framkvæmd, hollar og girnilegar og allir fjölskyldumeðlimirnir eru jafn hrifnir af matnum sem við matreiðum. Ég get endalaust dásamað þessa bók og hvet ykkur til að kaupa hana ef þið eruð ekki búin að því nú þegar og lofa að þið verðið ekki svikin.
Ég setti mig í samband við Berglindi og fékk góðfúslegt leyfi hennar til að birta eina uppskrift úr bókinni. Uppskriftin er þorskur með bragðsterku rauðlauksmauki og kryddjurtasósu. Hann er einfaldur í undirbúningi en alveg út úr þessum heimi bragðgóður.
FYRIR 4
800 gr þorskur, roðhreinsaður og skorinn í sneiðar
Kryddlögur
3 msk. sítrónusafi
1/2 dl hunang
2 msk. jómfrúarolía
1 rauð paprika, fínt söxuð
4 stórir rauðlaukar, fínt saxaðir
1 grænt chillí, fínt saxað
1/2 msk. sjávarsalt
Hitið pott við meðalháan hita. Setjið allt hráefni, nema fiskinn, í pottinn og látið malla í 10 mínútur. Þessu er svo smurt í þunnu lagi á fiskinn eftir að hann hefur verið eldaður.
Eldun á þorski
Skerið fiskinn í ca 200 gr sneiðar. Í flestum tilfellum er best að brúna fiskinn við háan hita í ólífuolíu í um 3 mínútur eða þar til hann er orðinn gullinbrúnn. Sneiðunum er þá snúið við og þær steiktar áfram í um 5 mínútur.
Tómatkryddjurtasósa
1 dós saxaðir, niðurskornir tómatar með hvítlauk
1/2 búnt ferskt kóríander, saxað
1/2 búnt fersk basilíka, söxuð
1 dl hvítvín
1 tsk kjúklingakraftur
Aðferð:
1. Sjóðið saman tómatblönduna, kjúklingakraftinn og hvítvín í um 5 mínútur.
2. Að síðustu er kryddjurtunum bætt útí.
Strákarnir mínir elska tómatkryddjurtasósuna og ég hugsa að ég geri tvöfaldan skammt næst. Mér fannst kryddlögurinn setja punktinn yfir i-ið, enda dásamlegt að finna smá spicy bragð. Með þessu hafði ég sætkartöflumús (soðnar sætar kartöflur stappaðar saman með olíu/smjöri og salti) og salat.
Leave a Reply