Þegar kemur að því að elda mexíkóskan mat vantar oft ansi mikið uppá frumlegheitin á þessum bæ og yfirleitt endar þetta á því að ég steiki kjúkling og grænmeti á pönnu og set í vefju sem er jú voða gott. En í þetta sinn langaði mig að prufa eitthvað alveg nýtt, eitthvað alveg sjúklega gott og endaði á því að gera þessar kjúklinga enchiladas. Sósan er hreint út sagt dásamleg og færir ykkur suðrænt, sumarlegt og seiðandi bragð og rétturinn getur varla verið mikið einfaldari.
Kjúklinga enchiladas
2 kjúklingabringur, eldaðar og rifnar niður
2 skarlottulaukar (eða 1/2 laukur/rauðlaukur) saxað smátt
160 g rifinn ostur
salt og pipar
1/4 bolli steikingarolía
8 vefjur
1 dós (400g) heilir afhýttir tómatar
1/4 kóríander
1 stórt grænt chillí, með eða án fræjum
1-2 hvítlauksrif, pressuð
1 msk rjómi
Aðferð
- Hitið ofninn á 190°c.
- Blandið saman í skál kjúklingi, lauk og helming af ostinum. Kryddið með salti og pipar.
- Hitið olíuna á pönnu og steikið vefjurnar við háan hita í 5 sek á hvorri hlið, mögulega gæti hvarflað að ykkur að sleppa þessu stigi, en trust me..do not! Leggið á bréfþurrku eða viskastykki. Deilið kjúklingablöndunni á allar vefjurnar og rúllið þeim þétt upp. Setjið í ofnfast mót.
- Látið í matvinnsluvél tómatana úr dósinni, kóríander, chillí, hvítlauk og rjóma og blandið vel saman. Hversu sterk sósan á að vera fer eftir því hvernig chillíið er. Ég tók helminginn af fræjunum úr svo að allir fjölskyldumeðlimir gætu borðað réttinn, en næst mun ég óhikað henda chillíinu út í án þess að fræhreinsa það, gefur þessu smá spæs en verður aldrei mjög sterkt. Hellið yfir vefjurnar og endið með að strá osti yfir.
- Bakið í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er orðinn gylltur.
- Berið fram með sýrðum rjóma, avacado og tómatsalsa.
Leave a Reply