Í þar síðustu viku fór ég í fyrri heimsókn mína í Granda Mathöll og heimsótti þá þrjá staði, Skjaldbökuna, LAX og Gastro Truck. Það er nú ekki leggjandi á nokkurn mann að smakka allan þennan dásamlega mat á einum degi svo við ákváðum nú að skipta umfjöllun minni um Mathöllina að minnsta kosti í tvennt.
Það eru varla 2 vikur síðan ég var úti á Granda að vafra um á milli staða. Þrátt fyrir það hef ég hlakkað til allan þann tíma að koma aftur því það er alveg sérstaklega skemmtilegur andi þarna inni. Allt svo afslappað og næs, ókunnugt fólk situr saman og þeir sem eru ekki alveg til í það geta samt verið meira út af fyrir sig.
Við Hjörtur, maðurinn minn, fórum saman í þetta sinn. Hugsanlega var hann jafn spenntur og ég enda matmaður mikill og sérlega gott að hafa hann með til þess að ræða í þaula það sem borið var á borð fyrir okkur.
Þegar við komum inn á staðinn var töluvert meira af fólki en síðast, það var 1. maí og margir í fríi þann dag. Ferðamenn á öllum aldri, stíliseraðir veganar, barnafólk, Íslendingar komnir á eftirlaun að spássera í bænum, vinkonu- og vinahópar, sumir á keto og aðrir á high carb… Það var allskonar fólk með allskonar smekk á mat og allir að fá eitthvað við sitt hæfi.
Ég hafði mælt mér fyrst mót við Atla Snæ, eiganda KoRe og annan eiganda nýja staðarins í Mathöllinni, Cubanos.
Atli er lærður kokkur og sérlegur áhugamaður um street food menningu. Eftir að hafa kynnst Kóreskum götumat í New York þar sem hann starfaði á Agern með Gunnari Karli Gíslasyni var ekki aftur snúið og undirbúningur KoRe hófst með óeiginlegum hætti. Á KoRe færðu Kóreskan götumat með LA tvisti eins og hann segir sjálfur. Hann gerir allt frá grunni og þarna er ekkert fúsk í gangi. Hann flytur meðal annars sjálfur inn þau hráefni sem þarf í Kimchi gerð. KoRe er einn af upprunalegu stöðunum í húsinu og var Atli að opna nýjan stað í Kringlunni þennan sama dag.
Fyrsti rétturinn sem ég smakkaði var taco þrenna, fallega fram borið á mini gastro bakka sem mér fannst skemmtileg framsetning. Grunnurinn í taco-unum er sá sami, kimchi, pikklað rauðkál, gochujang sósa og kimchi majó. Þú getur svo valið um mismunandi prótein eða blómkál fyrir vegan útgáfu. Við smökkuðum í dag Bulgogi naut, svínasíðu og kjúkling og hvert öðru ljúffengara. Þetta er ólíkt öllu því sem ég hef smakkað áður og er fullkomin blanda af umami bragði, salti og sýru. Stökkt rauðkálið ásamt kimchi-inu, sendir mann beint í annan heim hreinlega.
Með sósu út á kinn stóðst ég eiginlega ekki mátið að sleikja aðeins puttana áður en ég byrjaði á næsta rétti sem Atli kom með á borðið en það eru hinir margrómuðu kjúklingavængir. Við smökkuðum annars vegar vængi með soja og hvítlauk og hinsvegar vængi með sterkri gochujang sósu.
Ég skal alveg vera hreinskilin, ég hef aldrei verið fyrir kjúklingabita og allra síst kjúklingavængi. Ég er of pjöttuð fyrir bein og smjatt og vil helst bara bringu (já hlæið bara!). Hérna er bara eitthvað allt annað í gangi en ég hef smakkað í lífinu og ég hefði getað klárað þá alla. Gochujang sósan er alls ekki of sterk og passar fullkomlega með stökkum djúpsteiktum vængjunum. Soja og hvítlaukssósan var líka stórgóð, fullkomin blanda af seltu og sætu.
Atli hélt svo áfram að bera í okkur mat og næst var komið að Filthy fries en það er réttur sem hefur einnig slegið í gegn á KoRe. Við erum að tala um franskar toppaðar með Bulgogi nauti, vænum beikonbitum, vorlauk, kimchi – majó, chili, ostasósu og kimchi. Þessi réttur er einn af uppáhalds réttum mannsins míns. Þarna er bara allt að gerast og það er bara óskiljanlegt hvernig „venjulegar“ franskar geti breyst í eitthvað jafn geggjað.
Á meðan við ræddum um réttina sem við höfðum smakkað kom Atli óvænt með síðasta réttinn sem hann kallar „Fried Tiger balls“ en það eru djúpsteiktar hrísgrjónakúlur með beikoni og osti, bornar fram með kimchi majó. Þarna var ég orðin vel södd en ég gat samt ekki hætt að borða þessar bollur. Stökkar að utan, mjúkar að innan. Þetta geggjaða umami, passlega salta og sterka bragð. Kannski kláraði ég þær ein. Látum það liggja á milli hluta!
KoRe er skemmtilegur og öðruvísi götumatarstaður. Frumkvöðull á Íslandi í Kóreskum skyndibita og ástríðan finnst greinilega í hverjum rétti og hverjum bita. Það skal engan undra að á því ári sem liðið er frá opnun KoRe hefur hann eignast ört stækkandi og tryggan kúnnahóp.
Þarna kvaddi ég nú ekki Atla, ónei. Ástæðan fyrir því er einföld því hann, ásamt Jóa félaga sínum opnuðu í síðustu viku nýjan stað sem ber nafnið Cubanos. Ég hef nú áður minnst á hina frábæru kvikmynd The Chef en í henni sérhæfir aðalpersónan sig í gerð kúbansks götubita eða Cubanos samloka. Hin klassíska El Cubano er efst á matseðli Cubanos. Það er hinn heilagi hornsteinn Cubanos samlokunnar en hún inniheldur auðvitað brauð, skinku, grillaðan svínabóg, ost, súrsaðar gúrkur og sinnep. Hún er svo pensluð smjöri og grilluð í heitu samlokugrilli. Þessi samloka er í einfaldleika sínum svo stórkostleg. Heiðarleg, ekki að reyna að vera neitt annað en hún er. Virkilega bragðgóð, eiginlega svo að hún var horfin ofan í manninn minn áður en ég gat sagt „koddu meðana!“.
Með samlokunni kom ein sú mesta snilld sem við hjónum höfum séð og smakkað. Havana street corn er grillaður maís með hvítlauksmajó, parmesan, cayenne pipar, kóríander og lime. Rétturinn er einfaldur, fallegur og alveg hrikalega bragðgóður. Maísstönglar eru í einfaldleika sínum brilliant meðlæti en með þessu tvisti er hann hreinlega ómótstæðilegur. Réttur sem kom okkur kannski hvað mest á óvart.
Við kvöddum Atla Snæ pakksödd og mjög margar servéttur í höndunum. Sömu ástríðuna og heiðarleikann má finna á Cubanos, sem og mjög girnilega kokkteila! Við smökkum þá klárlega næst.
Við höfðum smá tíma til að jafna okkur áður en Herborg á Fjárhúsinu tók á móti okkur. Við byrjuðum á smá spjalli um Fjárhúsið og ég verð að segja að ég er alveg yfir mig heilluð af hugmyndafræði þeirra Birgis Rafns en þau reka Fjárhúsið saman. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta lambastaður og bara eini staðurinn sem býður upp á lamba skyndibita. Líkt og KoRe er Fjárhúsið búið að vera í Mathöll Granda frá upphafi og voru einnig að opna stórglæsilegan stað í Kringlutorgi. Hugmyndin á bakvið staðinn er bara einföld. Þetta er alíslenskur skyndibitastaður sem gerir allt frá grunni og einungis úr íslenskum hráefnum. Þau eru í góðu samstarfi við Sölufélag Garðyrkjumanna og fá frá þeim allt grænmetið og þar á meðal al-íslenska bufftómata.
Það fór ekki á milli mála að Herborg og Birgir hafa mikla ástríðu fyrir heilnæmum og heiðarlegum mat. Mat sem hefur helst enga innihaldslýsingu og heldur ferskleika sínum og bragðgæðum allt til neytandans.
Eftir smá spjall kom Birgir Rafn með einn þann girnilegasta borgara sem ég hef augum litið. Lambaborgari að sjálfsögðu, með lambabeikoni (sem er það eina sinnar tegundar á landinu), ásamt brakandi fersku grænmeti, steiktu kartöflusmælki og basilmajó.
Ég átti í smá basli með að athafna mig með borgarann en ég var eitthvað að reyna að vera pen. Ég er það nú sjaldnast svo ég skar hann bara í tvennt og tók hann upp með höndunum. En þannig segja þau, og ég trúi þeim bara alveg, að sé best að borða hann. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki til þess að ég hafi smakkað lambaborgara. Og nú skil ég bara alls alls ekki hvers vegna. Þetta er alveg brilliant hráefni og aðgengið ætti nú að vera alveg sæmilegt. Virkilega gott grillbragð, stökkt bragðmikið grænmeti og ég verð bara að taka fram þetta með tómatana. Íslenskir bufftómatar eru sjúklegir. Og ekki einu sinni líkt þeim sem fást stundum hérna í búðunum. Bragðmiklir og þéttir, ekkert bragðlaust drasl. Lambabeikonið ætti nú svo að eiga sér kafla. Eða sér blaðagrein. Af hverju hef ég ekki smakkað lambabeikon áður? Þetta er nú meiri snilldin og við Hjörtur alveg yfir okkur hrifin. Birgir sagði okkur að hann notaði framhrygg í beikonið í stað síðu og það skilar sér í alveg stórkostlegri útkomu. Ég veit ekki hverju ég átti von á en ég bjóst ekki við að það væri svona gott. Meira kjöt en fita og alveg passlega reykt og saltað.
Kartöflurnar passa sérlega vel við og ríma alveg við íslenska þemað. Hvað passar betur á íslenskan stað en íslenskt smælki? Basilmajóið inniheldur auðvitað íslenska basiliku og það passaði fullkomlega með kartöflunum, þvílíkt lostæti.
Þetta var sérlega vel útilátið og bragðgott og við hlökkum til að smakka næst hjá þeim kótiletturnar og íslensku kjötsúpuna sem inniheldur auðvitað m.a ferskt íslenskt grænmeti. Allt frá grunni muniði! Það er ekki laust við að ég hafi fundið aðeins til þjóðarstolts eftir að hafa borðað hjá þeim Herborgu og Birgi. Virkilega gaman að sjá slíkan metnað og það að getað boðið upp á íslenskan skyndibita á stað sem er mikið sóttur af ferðamönnum er sérlega gleðilegt.
Þessi heimsókn okkar Hjartar á Granda þennan dag var nú svo pökkuð af algjörlega frábærum mat að við sáum okkur ekki fært um að klára að fara yfir alla staðina svo við eigum tvo til góða. Við skellum í glænýja færslu þegar við höfum lokið þessari yfirferð okkar um Granda Mathöll.
Takk fyrir okkur!
Umfjöllunin er samstarf á milli Gulurrauðurgrænn&salt og Mathöll Granda. Athugið að engum myndum hefur verið breytt svo maturinn fái að njóta sín á sem heiðarlegasta hátt.
Hátíðarvín GRGS 2019!
Hátíðarvín GRGS 2019! Það er komið að þessu, dagurinn sem öll börn nær og fjær bíða eftir á ári hverju...
Vegamót Bíldudal – skyldustopp í “fish & chips”
Um verslunarmannahelgina lá leiðin á Bíldudal þar sem ungir og aldnir (eða kannski meira svona miðaldra) skemmtu sér konunglega....
Páskavín GRGS 2019
Páskar, loksins! Páskarnir eru án efa eitt mesta random frí sem til er í heiminum, en það skiptir ekki máli...
Hátíðarvín GRGS 2018!
Hátíðarvín GRGS 2018! Þá er loksins komið að þessu, hátíð ljóss og friðar, Bára komin í bleyti og mæjónesið orðið...
Marques de Casa Concha Chardonnay – Fullkomið fuglavín!
Marques de Casa Concha Chardonnay Mamma gella varð rétt rúmlega fertug um daginn (49) og ákvað heldur betur að bjóða...
Náttúruvín vikunnar á Skál!
Náttúruvín vikunnar á Skál! Eitt af einkennum Skál! er að þau bjóða eingöngu upp á náttúruvín og er Skál! Fyrsti...
Trapiche Gran Medalla Malbec í skóinn?
Trapiche Gran Medalla Malbec Ég er sjálfgreindur Malbec fíkill, ég skal glaður viðurkenna það. Ég hef skrifað um nokkur Malbec...
Montes Alpha Cabernet Sauvignon
Montes Alpha Cabernet Sauvignon Það eru margir sleðar þarna úti sem tala um það að “græða á daginn og...
Domaine De Villemajou Corbieres Boutenac er tryllt!
Domaine De Villemajou Corbieres Boutenac Domaine De Villemajou er búið að vera í miklu uppáhaldi hjá mér í nokkur...
Leave a Reply