Mathöll Granda umfjöllun – Fyrri hluti

 

Ég renndi í hlað Mathallarinnar í grenjandi rigningu, nokkrum mínútum áður hafði verið glampandi sól, alveg sérlega týpískt veður svona daginn eftir sumardaginn fyrsta. Ég beið í smá stund, nýtti tækifærið og blaðraði aðeins á Instastoryið okkar á Gulurrauðurgrænn&salt og lét mig svo hafa það að skokka inn með myndavélina á öxlinni og stílabókina í veskinu, alveg tilbúin til þess að taka niður nokkra punkta og mynda allan fallega matinn.

Þegar inn var komið mætti mér þessi dásamlegi ilmur, óræð blanda úr ýmsum áttum eins og við mátti búast. Sólin var aftur farin að skína og varpaði fallegri birtu inn á staðinn. Ég gekk nánast beint í flasið á markaðsstjóranum Franz Gunnarssyni og Þórði Bjarnasyni einum eiganda Skjaldbökunnar. Alveg tilbúnir að taka á móti mér og sýna mér hvað Mathöllin hefur upp á að bjóða.

Ég byrjaði á að spjalla við Þórð hjá Skjaldbökunni, en hann opnaði staðinn ásamt eiginkonu sinni, Eddu Karen Haraldsdóttur og Guðríði Hjördísi Baldursdóttur, fyrir aðeins rúmri viku síðan. Við fengum okkur sæti við austurgluggann sem snýr að höfninni og ég verð að segja að ég gæti líklega setið þarna heilan dag og gleymt mér við að horfa á það sem fyrir augu ber. Frábær staðsetning fyrir stað af þessu tagi.

Hann fer ekki leynt með það að hann hefur alveg einstaka ástríðu fyrir matargerð og er í þessu af lífi og sál, þrátt fyrir að rekstur þessa staðar sé ekki hans aðalstarf. Eins og margir götumatar staðir leitast Skjaldbakan við að hafa ferlið sem einfaldast, allt er gert frá grunni en matseðillinn er ekki stór, en alveg passlega þó. Þau bjóða upp á tvennskonar botna, annars vegar botn úr 100% súrdeigi en það er mjög algengt að geri sé bætt út í súrdeigið en þau stytta sér ekki leið í þeim efnum. Hinsvegar bjóða þau upp á keto botn en það tók þau langan tíma að þróa hann í réttum næringarhlutföllum ásamt því að halda honum kolvetnaskertum. Það er ekki annað hægt að segja að það hafi tekist sérlega vel en botninn inniheldur einungis 0,9g af kolvetnum í 100g og segja mér keto fróðir að það teljist vera mjög lágt.

Það var sérlega gaman að spjalla við Þórð og hann hafði frá mörgu að segja í tengslum við ferlið og opnun staðarins. Eftir gott spjall kom hann með tvær virkilega girnilegar pítsur en ég varð því miður að afþakka rauðvínið sem hann bauð mér. Næst ætla ég ekki á bíl! Það sem hann bauð mér upp á var annarsvegar súrdeigspítsa með sérlagaðri og algerlega sykurlausri sósu, 100% mozzarellaosti, parmaskinku, klettasalati og ekta parmesan osti. Botninn var mjög léttur en samt ekki sérlega þunnur en þannig pítsur finnast mér bestar. Áleggið var sérlega vel úti látið og mér finnst akkúrat best að hafa parmesan ostinn í svona stórum flögum eins og þið sjáið. Þessi er algjörlega nýtt uppáhald!

Nú er ég ekki á keto en ég er nú samt alltaf til í að smakka svona fallegar nýjungar sem keto pítsan þeirra á Skjaldbökunni er. Eins og áður sagði er botninn alveg „seif“ fyrir harðasta keto fólk en það magnaða er að hann er líka alveg kandítat að verða fyrir valinu af þeim sem eru það ekki. Hann er það góður. Krispí og bragðgóður. Á botninn er sama sósan, sykurlaus auðvitað en einnig pepperóní, almennilega skorið beikon, rjómaostur, piparostur og 100% rifinn Óðalsbúri en hann er mun feitari en mozzarellaosturinn. Það skal engan undra að trekk í trekk seljast deigin í botnana upp því þetta nýja leyndarmál verður það alls ekki lengi. Fólk er að koma langt að og sumir sem hafa ekki bragðað almennilega pítsu á mörg herrans ár.

Eftir að hafa diskúterað pítsurnar þeirra á Skjaldbökunni rölti ég yfir til þeirra á LAX. Ég passaði mig á því að sprengja mig ekki á pítsunum þó það hafi þurft viljastyrk sem ég vissi ekki að ég ætti til. Ég var nefnilega búin að frétta af sjávarréttarplattanum á LAX og bíðið, þær eru með freyðivín á KRANA! Hversu mikil snilld er það að getað keypt sér freyðivínsglas á góðu verði með fallegum sjávarréttum? Ég bara næ varla utan um þetta, mér finnst þetta svo dásamlegt.

Hún Dagbjört Inga, einn þriggja eigenda LAX tók á móti mér og við ákváðum að halda okkur við gluggaútsýnið út á höfnina. Þessi fyrrum lögfræðingur hjá Landsbankanum vatt kvæði sínu bókstaflega í kross og opnaði á sama tíma og Mathöllin opnaði fyrir tæpu ári. Meðeigendur hennar eru Una Lind Hauksdóttir og Ingveldur Ása Björnsdóttir og hugmyndin hjá þeim er sú að þú eigir að geta fengið smart sjávarrétti, örlítið posh, á viðráðanlegu verði ásamt freyðivínsglasi. Það er skemmst frá því að segja að þessi hugmynd gengur algjörlega upp. Ég pantaði nefnilega hjá henni sjávarréttaplattann fræga sem ég var svo spennt yfir. Hér er sko ekkert verið að sörvera lax í hlaupi eins og hjá Stellu forðum, ónei! Á borðið til mín kom þessi unaðslega fallegi bakki, troðfullur af allskonar girnilegum réttum. Eins og áður sagði gerði ég þau stóru mistök að koma á bílnum svo ég fékk mér ekki Ítalska freyðivínið sem þær flytja inn sjálfar en næst krakkar, næst mun ég prófa það með.

Á bakkanum var grillað súrdeigsbrauð með bleikjukremi og súrsuðum rauðbeðubitum. Risarækjur á spjóti sem var búið að marínera ásamt chili majó. Léttreyktur lax, laxa cheviche, chimichurri o.fl. Ég var bara komin í sæluvímu svo ef ég er að gleyma einhverju er það vegna þess að ég var bara of upptekin við að njóta matarins og lokað óvart eyrunum á sama tíma. Vonandi fyrirgefur Dagbjört mér það en ég hlustaði þó vel þegar hún sagði mér að þær byðu einnig upp á sjávarréttasúpu og fiski takó. Þetta er fallegur, ferskur og einfaldur matur. Hráefnin fá öll að njóta sín en saman eru þetta litlar bragðsprengjur. Ég mun koma aftur og aftur og smakka allt sem þær bjóða upp á, verðið kemur líka skemmtilega á óvart og þær sanna það að það þarf ekki að vera dýrt að gera vel við sig.

Eftir að hafa kvatt Dagbjörtu með loforði um að ég sæi hana fyrr en síðar (engin hótun samt) rölti ég yfir á Gastro Truck þar sem tvær ungar konur tóku vel á móti mér. Ég náði því miður ekki nöfnum þeirra en Gylfi og Linda, eigendur bílsins voru vant við látin enda nóg að gera þessa daga enda komin með annan stað í Mathöllinni Höfða. The Gastro Truck er með einfaldan seðil og einmitt ekki mikið fyrir að flækja einfalda hluti. Ég fékk tækifæri til þess að smakka þá þrjá rétti sem bíllinn bíður uppá en það eru kjúklingaborgari, vegan útgáfa af þeim borgara og kjúklingastrimla sem bornir voru með einföldu og strangheiðarlegu hrásalati og asian style bbq sósu. Borgararnir voru bornir fram með jalapeno aioli, en vegan borgarinn með vegan útgáfu af því.

Strimlarnir komu á borðið fljótt og vel og voru funheitir og stökkir. Bragðmikil húðin á bitunum passar sérlega með kjúklingnum og bbq sósunni sem var alls ekki of sæt en smá kick í henni þó. Þar sem ég sat ein með allan þennan dásamlega mat naut ég þess að horfa út á höfnina og njóta matarins á sama tíma. Útsýnið gerir mikið fyrir þessa upplifun sem heimsókn í Mathöllina á Granda er. En jæja, ég þurfti víst að leggja frá mér strimlana því nú átti ég eftir að smakka borgarana. Kjúklingaborgarinn er bara ekkert að látast vera eitthvað annað en hann er og ég bara fíla það. Krispí kjúklingur í dúnmjúku brauði með hrásalati og jalapeno aioli er bara að virka. Og virkar svo vel að þau selja nánast ekkert annað!

Vegan útgáfan kom mjög á óvart. Buffið var bragðgott og alls ekki of mjúkt sem getur verið galli með vegan buff. Virkilega bragðgóður kostur fyrir þá sem kjósa að sneiða hjá dýraafurðum.

Ég man eftir bráðskemmtilegu viðtali við hjónin Gylfa og Lindu en þar töluðu þau um að hafa séð myndina The Chef í leikstjórn Jon Favreau en hún er orðin einhversskonar költ mynd fyrir götumats aðdáendur um allan heim. Án þess að rekja söguþráð myndarinnar hér var þessi mynd valdur að því að þau rákust á og keyptu trukk líkan þeim sem er í myndinni og nokkrum mánuðum síðar varð The Gastro Truck að veruleika. Strangheiðarlegur götumatur, ekkert prjál, ekkert vesen, bara bragðgóður, einfaldur og fljótlegur matur.

Þeir staðir sem saman mynda Mathöllina eru allir skemmtilega ólíkir en mynda lifandi og spennandi heild. Staðsetningin er mjög ferðamannavæn og það fer ekki á milli mála þegar ummælin eru skoðuð á Facebook síðu Mathallarinnar að þeir eru afar sáttir með þetta framtak. Hér er eitthvað að finna fyrir alla sem hafa smekk fyrir heiðarlegum, spennandi, einföldum og bragðgóðum mat á góðu verði.

Ég þakka kærlega fyrir stórgóðar móttökur og enn betri mat. Í næstu viku mun ég fjalla um KoRE, Fjárhúsið, Fushion Fish and Chips o.fl.

 

 

 

Umfjöllunin er samstarf á milli Gulurrauðurgrænn&salt og Mathöll Granda. Athugið að engum myndum hefur verið breytt svo maturinn fái að njóta sín á sem heiðarlegasta hátt.

 

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.