Það er fátt jafn dásamlegt og að aka suðurleiðina á íslenskum sumardögum en það virðist vera orðið árlegt hjá mér eftir að ég uppgötvaði allar þær perlur sem leynast á leiðinni. Til að nefna nokkrar þá er alltaf jafn gaman að stoppa við Seljalandsfoss, Paradísahelli, Reynisfjöru, Jökulsárlón og svona mætti lengi telja. Stór hluti af mínum ferðalögum fela í sér að heimsækja nýja, spennandi veitingastaði og bragða á góðum mat.
Á dögunum lágu leiðir mínar til Egilsstaða og ég var svo heppin að vinkona mín þekkti vel til þannig að hún tók ekki annað í mál en að ég myndi fara á veitingastaðinn Nielsen.
.
Nielsen veitingahús er staðsett í hjarta Egilsstaða við Tjarnarbraut 1 í elsta húsi bæjarins sem nýlega hefur verið uppgert.
Eigendur staðarins eru hjónin Kári Þorsteinsson, en hann er jafnframt yfirkokkur staðarins og Sólveig Edda Bjarnadóttir, sem er framkvæmdastjóri. Þau kynntust í byrjun árs 2016 og fundu það strax að þau vorum mjög samstíga með sín framtíðarplön. Þau stefndu á að flytja út á land þegar þau væru byrjuð að eignast börn.
Rétta tækifærið kom í lok árs 2018 þegar þau keyptu Nielsen. Strákurinn þeirra fæddist svo 9.janúar, en það er gaman að segja frá því að þau fluttu austur 9.mars og opnuðu Nielsen 9.maí…spennandi að heyra hvað gerðist 9.júlí ;)
Eigendur staðarins eru hjónin Kári og Sólveig Edda
Kári er frá Hólmavík og er lærður matreiðslumeistari. Hann var yfirkokkur á Dill og þar á undan á Kol. Hann byrjaði að læra 19 ára og er búin að vinna á helling af stöðum bæði hérlendis og erlendis.Hann er forfallinn veiðimaður og sá í hyllingum að búa svona nálægt náttúrunni, heiðunum og ánum sem hann gæti bara “skotist” í þegar hann vildi, svo ekki sé minnst á hreindýrið.
Sólveig Edda, er lærður ferðamálafræðingur með master í markaðsfræði. “Ég er ekkert lærð í matreiðslu eða framreiðslu en hef starfað sem flugfreyja síðustu ár hjá Icelandair. Áhugi minn á matargerð hefur samt alltaf verið mjög mikill og ég hef eldað mikið fyrir fjölskyldu og vini, og dreymt um að eiga veitingastað síðan löngu áður en ég kynntist Kára (byrjaði meira að segja í kokkinum á sínum tíma) og áhuginn á þessu hefur sko sannarlega ekki minnkað eftir að ég byrjaði með Kára ;) VIð erum búin að ferðast mikið saman síðan við kynntumst bæði hérlendis og erlendis og einhvernvegin snýst alltaf allt um hvað eigi að prófa næst og hvert við ættum eiginlega að fara að borða.”
Við hugsum staðinn þannig að við ætlum að vera með lítinn seðil sem byggir eins mikið og mögulegt er á hráefni af Héraði og frá Austurlandi. Kvöldmatseðillinn mun breytast nokkuð ört í takt við árstíðir og framboð hráefnis, en það er bæði boðið upp á fisk, kjöt og grænmetisrétti (og líka vegan option).
Í hádeginu eru alltaf 3 réttir dagsins, einn kjöt, einn fiskur/pasta og einn grænmetisréttur, og breytist það dag frá degi. Við vildum reyna að skapa afslappað andrúmsloft, þar sem fólk getur notið góðs matar í þægilegu og kósí umhverfi, án þess þó að finnast það þurfa að mæta í síðkjól og jakkafötum.
Í vetur verður stefnan að vera með allskonar pop-up viðburði þar sem boðið verður upp á mismunandi tegundir matargerðar í samstarfi við kokka/veitingahús annarsstaðar af landinu.
Fjölbreyttur matseðill
Okkar helsti markhópur og það fólk sem við leggjum mesta áherslu á að gleðja eru heimamenn, bæði Egilsstaðabúar og Austfirðingar. Með því að vera með breytilegan matseðil og pop-up og annað í þeim dúr gerum við þeim kleift að koma til okkar og upplifa og prófa nýja hluti í matargerð aftur og aftur. Þó svo að við komumst líklega ekki hjá því að halda nokkrum signature réttum inni, eins og súkkulaði saltkaramellunni sem er gríðarlega vinsæl.
Hreindýratartare, með sveppakremi, eggjarauðum, hreindýramosa, brauðteningum og sinnepskáli

 

Veitingastaðurinn Nielsen er í fallegu og heillandi húsnæði og þegar veðrið er gott er pallurinn fyrir framan húsið hrein himnasending. Upplifun okkar af matnum var virkilega góð. Eldamennskan á Nielsen er metnaðarfull og öll hráefnin eru sérvalin og keypt af stöðum í nágrenninu.
Þorskur, bygg, rabbabari, basil og mysikaramella

 

Hér gefur að líta þá rétti sem við fengum okkur en þeir voru hver öðrum betri og fjölbreytnin mikil þó allir réttirnir hafi átt tengingu við íslenska náttúru. Ég á erfitt með að gera upp á milli réttanna, þorskurinn var magnaður, jarðskokkarnir virkilega skemmtilegur réttur og lambakjötið hreinlega bráðnaði í munni. Bygg er hráefni sem við ættum að nota miklu meira og bygg risottoið var himneskt.
Jarðskokkar á þrjá vegu – jarðskokkamauk, gerjaðir jarðskokkar (í skyrmysu) og bankabygg og jarðskokkakex ofan á

 

Lambaprima, kartöflumús, blaðlauksmauk, hvítlauksgras (olía)

 

Bygg risotto með skyri og ferskosti (Gellir) frá Egilsstaðabýlinu, klettasalat og pípulaukur

 

Grásleppuhrogn í jógurti með graslauk borið fram með vöfflu

 

Grásleppuhrognin komu virkilega á óvart. Ég er ekki viss um að ég hefði þorað í þennan rétt hefði ég þurft að velja á milli réttanna. En þessi réttur var frábær og minnti að einhverju leiti á blinis. Skemmtilegt líka að bera hrognin fram á vöfflu – íslenskara verður það ekki.

 

Nielsen spritz – einn besti og ferskasti kokteill sem ég hef bragðað

 

Ég elska góða og ferska kokteila og þessi kokteill lifir enn í minningunni. Ferskur og ótrúlega bragðgóður. Vildi að ég kynni að gera hann!

 

Skyr ganache með hvítu súkkulaði, rabbabara og fáfnisgrasolíu

 

Súkkulaðisaltkaramella með mjólkurís frá Skúbb og lerkinálum – ómæ

 

Veitingastaðurinn Nielsen hefur þennan fallega íslenska sjarma, ákveðinnar nostalgíu,  sem má eflaust rekja til fallegrar staðsetningar, hússins, ásamt ástríðu eigandanna og metnaður til að gera vel, sem lætur mann ekki ósnortinn.  Heimsókn á Nielsen er dásamleg upplifun frá a til ö með fallegri tengingu við íslenska náttúru.

Frekari upplýsingar um Nielsen getið þið fundið hér.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.